Innlent

Skipar vinnuhóp til að skoða starfsemi smálánafyrirtækja

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Iðnaðarráðherra, ætlar að skipa starfshóp til að skoða starfsemi smálánafyrirtækja.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Iðnaðarráðherra, ætlar að skipa starfshóp til að skoða starfsemi smálánafyrirtækja. VÍSIR/EYÞÓR
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri Grænna, var málshefjandi sérstakrar umræðu um smálán á Alþingi í dag en hún sagði meðal annars í ræðu sinni marga telja starfsemi smálánafyrirtækja óforskammaða og sagði sum fyrirtækin hafa farið á svig við lög sem var ætlað að koma á þau böndum.

„Starfsemi smálánafyrirtækjanna felst í því að lána fé til skamms tíma og eru vextir gríðarháir. Þannig geta nafnvextir á ársgrundvelli numið hundruðum prósenta. Samkvæmt gildandi lögum er slík vaxtataka ólögleg en farið er í kringum það með því að kalla vextina lántökukostnað, og ýmsum öðrum yfirdrepsskap er beitt til að hækka endurgjaldið fyrir lánveitinguna umfram það sem heimilt er,“ sagði Bjarkey.

Ennfremur rifjaði hún upp nýlegar upplýsingar frá Umboðsmanni skuldara sem benda til þess að smálán séu nú ein helsta orsök þess að ungt fólk lendi í skuldavandræðum.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður VG, var málshefjandi umræðunnar.Vísir
„Það er einnig mál margra að smálánum sé einkum beint að samfélagshópum sem búa við slakan efnahag og ungu fólki. Nýlegar upplýsingar frá embætti umboðsmanns skuldara staðfesta þetta og sýna svo ekki verður um villst að það er einkum ungt, tekjulágt fólk sem tekur smálánin og ratar í slíkan greiðsluvanda vegna þeirra að það neyðist til að leita aðstoðar embættisins við að leysa úr vandkvæðum sínum.“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Iðnaðar, nýsköpunar- og ferðamálaráðherra, sagði að innan hennar ráðuneytis væri þegar byrjað að skoða starfsemi smálánafyrirtækja og til stæði að skipa starfshóp sem ætlað væri að koma með lausnir í málaflokknum.

„Það er mín skoðun út frá sjónarmiðum um neytendavernd að núverandi staða mála þegar kemur að regluverki smálánafyrirtækja sé ekki eins og best verður á kosið og ástæða sé til að taka þau mál til nánari skoðunar,“ sagði ráðherrann og vék að þáttum er varða úrbætur á kerfinu. “Varðandi hvað sé hægt að gera í úrbótaskyni af hálfu löggjafans þá eru þar ýmsar leiðir sem mögulega koma til greina, m.a. að gera starfsemina leyfisskylda, skilgreina smálánafyrirtæki sem fjármálafyrirtæki og færa þau þannig undir Fjármálaeftirlitið, gera auknar kröfur um upplýsingaskyldu og ýmislegt fleira.“

Fjallað var um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2. Fréttina má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×