Fótbolti

Rummenigge: Hundrað prósent öruggt að Lewandowski spilar með Bayern á næsta tímabili

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robert Lewandowski.
Robert Lewandowski. Vísir/Getty
Robert Lewandowski er ekki á leiðinni til Real Madrid í sumar. Það héldu margir en nú hefur framkvæmdastjóri Bayern München útilokað það að pólski framherjinn sé á förum frá þýska félaginu.

Lewandowski er með samning við Bayern München til 30. júní 2021 og á því þrjú tímabil eftir af þessum samningi. Það er því engin pressa á Bæjurum að selja leikmanninn.

Karl-Heinz Rummenigge, framkvæmdastjóri Bayern München, lítur svo á að Pólverjinn sé of mikilvægur fyrir liðið til að láta hann fara. „Hann er ótrúlega mikilvægur fyrir okkar lið og kannski besta nían í Evrópu,“ sagði Karl-Heinz Rummenigge í viðtali við Kicker.





Robert Lewandowski hefur spilað með Bayern frá 2014 og hefur skorað 142 mörk í 184 leikjum fyrir félagið. Lewandowski ermeð 32 mörk í 37 leikjum í öllum keppnum á þessu tímabili og skoraði yfir 40 mörk á tveimur tímabilum þar á undan.

„Það er hundrað prósent öruggt að Robert Lewandowski spilar með Bayern München á næsta tímabili. Það getur ekkert félag keypt leikmann Bayern München ef félagið vill ekki selja,“ sagði Rummenigge og nefnir dæmi um það þegar Bayern seldi ekki Franck Ribery til Chelsea árið 2008 þrátt fyrir risatilboð.

„Það tilboð var algjört brjálæði,“ sagði Rummenigge en félagið seldi ekki franska leikmanninn sem er ennþá í herbúðum félagsins. „Okkar hugarfar hefur ekkert breyst á þessum tíu árum,“ sagði Rummenigge.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×