Viðskipti innlent

Guðrún Tinna ráðin til Fríhafnarinnar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Guðrún Tinna Ólafsdóttir.
Guðrún Tinna Ólafsdóttir. Mynd/Isavia
Guðrún Tinna Ólafsdóttir hefur verið ráðin til Fríhafnarinnar sem rekstarstjóri verslunarsviðs. Tinna mun hefja störf í byrjun apríl en undir verslunarsvið heyrir daglegur rekstur verslana Fríhafnarinnar, ásamt almennum sölu-, markaðs- og rekstarmálum. Um er að ræða nýtt starf og hluta af skipulagsbreytingum, að því er segir í tilkynningu frá Isavia.

Tinna er með M.S. gráðu í fjármálum. Hún hefur víðtæka og góða reynslu af smásölu, rekstri, markaðsmálum og stefnumótun. Hún hefur m.a. starfað sem framkvæmdastjóri íslenska barnafatamerkisins Ígló ehf. og hjá Baugi Group þar sem hún vann með stjórnendum smásölufyrirtækja í Danmörku, Svíþjóð og á Íslandi.

Þar áður starfaði Tinna hjá Kaupthing Bank Luxembourg og Verðbréfamarkaði Íslandsbanka.  Í dag situr Tinna í stjórn fasteignafélagsins Regins hf. og er stjórnarformaður Svanna, lánatryggingasjóðs kvenna. Hún er gift Karli Pétri Jónssyni og saman eiga þau fimm börn.

„Við erum spennt og ánægð að fá reynslumikinn stjórnanda eins og Tinnu til liðs við öflugan hóp Fríhafnarstarfsmanna“ segir Þorgerður Þráinsdóttir framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar.

„Fríhöfnin er í alþjóðlegu og síbreytilegu umhverfi og á skömmum tíma hafa orðið mjög hraðar breytingar á starfsumhverfinu. Til að vera betur í stakk búin til að takast á við nýjar áskoranir höfum við verið í stefnumótun og skipulagsbreytingum. Tinna hefur góða þekkingu og reynslu af smásölu og rekstri sem nýtist vel í það kerfjandi verkefni að stýra verslunarsviði Fríhafnarinnar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×