Skoðun

Hver ætlar að eyða umönnunarbilinu?

Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar
Nú þegar styttist í sveitarstjórnarkosningar þurfakjósendur að gera upp við sig hvaða framboð fær þeirra atkvæði. Eitt af mikilvægustu verkefnum allra sveitarfélaga á landinu eru dagvistunarmál barna.

Engu að síður búa margir foreldrar ungra barna við þær aðstæður að sveitarfélög tryggja ekki aðgang að leikskóla fyrr en 15 mánuðum eftir að fæðingarorlofi lýkur.

Foreldrar ungra barna þekkja því vel þennan vanda. Það gera líka ömmur og afar og aðrir sem reyna að hjálpa til með því að passa börnin dag og dag til að bjarga því sem bjargað verður. Þetta er stór hópur kjósenda.

Það hefur lítil breyting orðið í þessum málaflokki síðustu 30 árin. Það er vitað að fyrirkomulagið sem nú er við lýði hefur veruleg og víðtæk áhrif, til dæmis á andlega líðan og fjárhagsstöðu barnafjölskyldna, atvinnuþátttöku, starfsþróunarmöguleika og launamun kynjanna. Þetta er samfélagslegt vandamál sem sveitarfélögin í landinu þurfa að bregðast við.

Inntökualdur á leikskóla getur verið allt frá níu mánuðum upp í tvö ár. Könnun sem BSRB gerði hjá öllum sveitarfélögum á landinu leiddi í ljós að foreldrar þurfa að meðaltali að brúa þrjá til sex mánuði á milli níu mánaða fæðingarorlofs og þess að barnið komist að hjá dagforeldri eða leikskóla. Bilið er enn lengra hjá flestum einstæðum foreldrum og foreldrum sem geta ekki tekið fæðingarorlof af fjárhagsástæðum. Þá getur biðin verið lengri ef barn fæðist á ákveðnum tímum árs, ef árgangar eru stórir eða mannekla er á leikskólum.

Það er óásættanlegt að ekki sé jafnræði með foreldrum á landinu þegar kemur að þessari grunnþjónustu. Sveitarfélögin verða að tryggja að hún sé í lagi. Það er lítill hvati til barneigna ef þær ýta undir misrétti kynjanna, fela í sér margra mánaða tekjuleysi og í sumum tilfellum starfsmissi.

Við þessu þarf að bregðast og það ætti að vera áherslumál allra flokka sem bjóða fram í komandi sveitarstjórnarkosningum. Útrýma þarf umönnunarbilinu með því að bjóða upp á tryggt dagvistunarúrræði strax að loknu fæðingarorlofi.



Höfundur er lögfræðingur BSRB.





Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×