Menning

Maður lætur alltaf freistast

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar
Hafsteinn og Anna eru ekki síst með börnin í huga við val sitt á bókum.
Hafsteinn og Anna eru ekki síst með börnin í huga við val sitt á bókum.
„Við eigum nokkuð af bókum. Reyndar svo mikið að nú verðum við eiginlega að fara að hætta að kaupa þær, en þegar maður kemur á þennan markað lætur maður alltaf freistast,“ segir Hreinn Bergsveinsson sem mættur er á svæðið ásamt Valgerði Pálsdóttur. Meðal bóka sem vekja áhuga þeirra er ritsafn Þorsteins frá Hamri og barnabækur, þar á meðal Vaknaðu, Sölvi eftir Eddu Heiðrúnu Backman og Þórarin Eldjárn og Stígvélaði kötturinn. „Við erum með barnabarn sem verður þriggja ára nú í mars, heldurðu að hann verði ekki að fara að lesa,“ segir Hreinn kankvís.

Hafsteinn Guðjónsson og Anna Helgadóttir eru einnig í bókakaupum og sömuleiðis með börnin í huga. „Það er mikilvægt að börn lesi,“ segir Anna og sýnir blaðamanni stafla af bókum um hinn skemmtilega Skúla skelfi. Orð að sönnu eftir Jón G. Friðjónsson er einnig í körfunni. „Ég hef gaman af slíkum bókum og kaupi þær oft,“ segir Hafsteinn. Anna valdi sér Snarkið í stjörnunum eftir Jón Kalman Stefánsson sem er höfundur sem hún hefur mikið dálæti á. Smásögur heimsins, Rómanska Ameríka er einnig með í bókakaupunum. „Við erum nýbúin að vera í Perú þannig að okkur finnst freistandi að lesa sögur frá þessum heimshluta,“ segja þau.

Lifandi bækur

Blaðamaður rekst á Svein Einarsson, fyrrverandi þjóðleikhússtjóra. Eigin­kona hans, Þóra Kristjánsdóttir, er skammt frá niðursokkin í að skoða bækur. Sveinn segist hafa komið á bókamarkaðinn frá unga aldri. „Það er svo gaman að vera innan um bækur, þær eru svo lifandi.“ Hann segir þau hjón eiga mikið af bókum. „Reyndar svo margar að nú er ég kominn á það stig í lífinu að ég er að gefa bækur frá mér. Á seinni árum hef ég sagt við sjálfan mig þegar ég mæti á bókamarkaðinn: Nú kaupi ég ekkert því við eigum svo mikið af bókum, en hef alltaf svikið það. Alltaf geng ég út af markaðnum með fullt af bókum.“ Meðal bóka í kerrunni hjá Sveini er Orð að sönnu. „Ég hef svo gaman af orðaleikjum og spakmælum og er alltaf að geta mér þess til hvernig orðatiltæki hafa orðið til,“ segir hann.

Ármann Schelander er að skoða bókina Eitt þúsund tungumál þegar blaðamaður ónáðar hann. Hann segist hafa mestan áhuga á fræðibókum og hefur þegar ákveðið að kaupa Jörund hundadagakonung eftir Sarah Bakewell og líklegt er að tungumálabókin verði sömuleiðis fyrir valinu. Hann segist einnig vel geta hugsað sér að kaupa bók um málvísindi.

Katrín Ósk Þráinsdóttir segist yfirleitt mæta á markaðinn enda sé hún bókaormur. „Mér finnst líka gaman að gefa bækur,“ segir hún með fangið fullt af bókum, þar innan um eru þýddar erlendar skáldsögur sem hún ætlar meðal annars að gefa. Þar á meðal eru Undur eftir RJ Palacio og Ólæsinginn og Víga-Anders eftir Jonas Jonasson. „Svo er ég með bækur fyrir litlar frænkur sem búa erlendis, ég vil leggja mitt af mörkum til að halda íslenskunni að þeim. Ég hef áhuga á göngum og valdi mér 25 gönguleiðir á Þingvallasvæðinu og er svo með hjólabók fyrir manninn minn sem gæti nýst honum vel.“

Bækur til fermingargjafa

Baldur Þórhallsson og Felix Bergsson eru að sanka að sér bókum þegar blaðamaður mætir þeim. Baldur hefur verið bókaormur frá unga aldri. „Ég er alinn upp við Hellu á Rangárvöllum og þá biðum við krakkarnir alltaf spennt eftir því að bókamarkaðurinn væri opnaður á kaupfélagsloftinu. Bókamarkaðurinn stóð frá 1. desember fram yfir jól. Ég gat ekki beðið eftir að sjá nýjustu jólabækurnar, keypti kannski eina og pantaði aðrar í jólagjöf.“

„Við erum bæði að kaupa fyrir okkur sjálfa og bækur til gjafa,“ segir Felix sem segist iðulega mæta á bókamarkaðinn. Meðal þeirra bóka sem hann keypti fyrir sjálfan sig eru Egils sögur eftir Pál Valsson og Stuð vors lands eftir Dr. Gunna. Úr fjötrum – Saga Alþýðuflokksins eftir Guðjón Friðriksson er bók sem Baldur valdi sér ásamt bókinni Stríðið mikla eftir Gunnar Þór Bjarnason. Í körfunni eru einnig bækur sem þeir segja ætlaðar til fermingargjafa, þar á meðal Vísindabókin.

Þóra Guðmundsdóttir er mætt á bókamarkaðinn ekki síst í þeim erindagjörðum að kaupa bækur til fermingargjafa. „Ég er ekki fylgjandi því að gefa einungis peninga í fermingargjöf,“ segir hún. „Mér finnst að það eigi að gefa bækur og kannski láta einhvern pening fylgja með. Til fermingargjafa hefur hún meðal annars valið draumaráðningabók, tilvitnanabók og Eitt þúsund tungumál, en blaðamaður sér einmitt nokkra gesti markaðarins skoða þá bók af miklum áhuga. „Unglingarnir eiga eftir að kíkja í þessar bækur einhvern tíma,“ segir Þóra af ákveðni.

Í minningu mömmu

Gerður Steinarsdóttir og Erlín Katla Birgisdóttir eru síðustu gestir markaðarins sem blaðamaður heilsar upp á. Erlín, sem segist lesa þó nokkuð, er að leita að bókum við hæfi. Hún á sína uppáhaldshöfunda og nefnir Yrsu Sigurðardóttur og Stefán Mána. Gerður er að kaupa barnabækur handa barnabörnunum. „Mér finnst gífurlega mikilvægt að þau lesi bækur. Ég byrja að lesa fyrir þau strax þegar þau eru kornung. Það skiptir öllu máli fyrir málþroska og orðaforða. Ég er líka með tvítyngd barnabörn og lykillinn að því að þau nái góðum tökum á íslensku er að þau lesi bækur á því máli,“ segir hún. Hin sívinsæla Pollý­anna er meðal þeirra bóka sem hún hefur ákveðið að kaupa. „Það er í minningu mömmu sem var Pollý­annan,“ segir hún.

Blaðamaður og ljósmyndari kveðja markaðinn eftir að ljósmyndarinn hefur fallið í freistni og sankað að sér bókum til kaupa. Blaðamaður ætlar svo að mæta um helgina með tveggja ára bókelska frænku sína sem hún veit að mun una sér hið besta innan um bókaflóðið. Síðasti opnunardagur er nú á sunnudag þannig að bókaunnendur sem eiga eftir að leggja leið sína þangað hafa ekki langan tíma til stefnu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.