Innlent

Atli ráðinn sem ráðgjafi hjá Pírötum

Sveinn Arnarsson skrifar
Atli Þór Fanndal verður pólitískur ráðgjafi Pírata
Atli Þór Fanndal verður pólitískur ráðgjafi Pírata
Píratar ætla sér stóra hluti í komandi sveitarstjórnarkosningum og munu bjóða fram í nokkrum sveitarfélögum landsins. Hafa þeir í þeim leiðangri ráðið Atla Þór Fanndal blaðamann sem póli­tískan ráðgjafa flokksins í komandi kosningum.

Erla Hlynsdóttir, framkvæmdastjóri flokksins, segir Pírata stefna á framboð í Reykjavík, Kópavogi, Akureyri, Hafnarfirði, Reykjanesbæ og Árborg. Einnig skoðar flokkurinn alvarlega að tefla fram lista í Mosfellsbæ.

„Svo erum við að skoða möguleika á að bjóða fram ein eða með öðrum annars staðar,“ segir Erla.

Atli mun koma inn í starfið og vera til halds og trausts bæði fyrir framboðin og einstaka frambjóðendur.

„Hans hlutverk er að vera pólitískur ráðgjafi flokksins. Við höfum verið með ráðgjafa í síðustu tveimur kosningabaráttum. Hann er til ráðgjafar fyrir þá sem hafa áhuga á því, bæði aðildarfélögin og frambjóðendur,“ bætir Erla við.

„Það var okkar mat að hann hefði mikla þekkingu á pólitísku landslagi á Íslandi og að það væri styrkur í að fá hann inn í okkar teymi fyrir þessar sveitarstjórnarkosningar.“

Píratar mældust stærsti stjórnmálaflokkur landsins í fyrsta skipti í maí árið 2015.

Gallup mældi flokkinn í 36 prósentum þann 1. apríl ári seinna. Í síðustu mælingu var flokkurinn með tæpra tólf prósenta fylgi og fjórði stærsti flokkurinn á þingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×