Innlent

Ekki tækt að þingmenn fái hærri ökutækjastyrk en almenningur

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Þorsteinn Víglundsson er einn fjögurra þingmanna Viðreisnar.
Þorsteinn Víglundsson er einn fjögurra þingmanna Viðreisnar. Vísir/Ernir

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, segir að þingmenn geti ekki sett um sín störf aðrar reglur en þær sem þeir ætli almenningi að stara eftir. Þingmenn fá um 30 krónum meira endurgreitt á hvern kílómetra en hinn almenni borgari, aki þeir meira en 15 þúsund kílómetra á ári. Þetta kom fram í máli Þorsteins í umræðu um störf þingsins á þingfundi í dag.

„Það er ánægjulegt að sjá að í þinginu virðist vera að skapast þverpólitísk sátt um að auka verulega gagnsæið á þessum greiðslum. Það er auðvitað rétt að hafa í huga að það er mjög eðlilegt að þingmönnum sé endurgreiddur starfskotnaður sinn og ferðakostnaður. Það er líka eðlilegt að sá kostnaður sé umtalsvert meiri hjá landsbyggðarþingmönnum heldur en þingmönnum á höfuðborgarsvæðinu,“ sagði Þorsteinn.

Hann sagði að gagnsæið sem menn kalli nú eftir sé mikilvægt en að það sé hins vegar ekki fullnægjandi. Hann segir ljóst að það þurfi að taka reglur um starfskostnað til endurskoðunar.

Tæpar 100 krónur á kílómetrann

„Það vakti athygli mína þegar ég fór að skoða þær reglur sem um aksturskostnað þingmanna, það er að segja þær viðmiðunartölur um krónur á ekinn kílómetra sem notast er við, og eru skattfrjálsar samkvæmt sérlögum um þingfararkaup þingmanna, þær eru umtalsvert ríkulegri heldur en ríkisskattstjóri styðst við í almennum ökutækjastyrk og þeim reglum sem gilda um almenning almennt þegar kemur að endurgreiðslu á aksturskostnaði,“ sagði Þorsteinn, en viðmið skattstjóra um ökutækjastyrk má nálgast hér.

„Við getum ekki sett um okkar störf aðrar reglur en þærs em við ætlum almenningi í þessu landi að vinna og starfa eftir.“

Hann segir að það séu umtalsverðar fjárhæðir sem munar um.

„Skattstjóri leggur svo að fyrir hvern ekinn kílómetra, þegar eknir eru 15 þúsund kílómetrar eða fleiri skuli greiddar 65 krónur á hvern kílómetra, meðaltalið okkar liggur sennilega einhvers staðar nærri 100 krónum. Þetta samsvarar tekjum á mánuði sem geta legið á bilinu 100 til 200 þúsund krónur að teknu tilliti til skatta, ef eknir eru 15 til 45 þúsund kílómetrar eins og hefur verið hér í umræðunni. Þetta er ekki tækt. þessu eigum við að breyta,“ sagði Þorsteinn að lokum og mátti heyra að margir þingmenn í salnum voru á sama máli.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×