Erlent

Framleiðandi sakar Harvey Weinstein um líkamsárás

Kjartan Kjartansson skrifar
Weinstein komst upp með að áreita og beita konur kynferðislegu ofbeldi um áratugaskeið óáreittur.
Weinstein komst upp með að áreita og beita konur kynferðislegu ofbeldi um áratugaskeið óáreittur. Vísir/AFP

Bandaríski kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein réðst á meðframleiðanda kvikmyndar um ævi Marilyn Monroe vegna þess að honum mislíkað hversu góðar viðtökur myndin hlaut í tilraunasýningu. Þetta fullyrðir breski kvikmyndaframleiðandinn David Parfitt í nýrri heimildamynd.



Atvikið átti sér stað eftir tilraunasýningu á myndinni „My Week with Marilyn“ sem Weinstein og Parfitt framleiddu og kom út árið 2011. Að sögn Parfitt var Weinstein ekki ánægður með lokaútgáfu myndarinnar og taldi hann að Monroe þyrfti að koma meira við sögu.



„Hann hélt mér föstum upp við kóksjálfsala og hótaði alls konar hlutum. Það var mjög ógnvekjandi. Hann var ævareiður yfir því að myndin í útgáfu okkar virkaði,“ segir Parfitt í nýrri heimildamynd bresku sjónvarpsstöðvarinnar Channel 4, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.



Talsmaður Weinstein segir að þeir Parfitt hafi átt í listrænum ágreiningi um myndina. Weinstein hafi beðist afsökunar á ruddalegri hegðun við ákveðnar aðstæður í fortíðinni. Hann neiti hins vegar alfarið að hafa gert nokkuð glæpsamlegt.



Komst upp með áreitnina í krafti samninga sem keyptu þagmælsku

Fleiri ásakanir koma fram í heimildamyndinni. Ung kona sem starfaði fyrir Miramax-fyrirtæki Weinstein segir hann hafa beðið hana um að nudda sig þegar hún hitti hann fyrst. Þegar hún vildi ekki fallast á það þrýsti hann á hana að afklæðast svo að hann gæti nuddað hana á meðan hann fróaði sér. Weinstein hafi svo þrýst á hana að fara í sturtu með sér.



Fyrrverandi starfsmenn hans segja að Weinstein hafi geta haldið uppteknum hætti í krafti samninga sem hann gerði um þagmælsku þeirra sem hann áreitti og beitti ofbeldi. Weinstein neitar öllum áskönunum sem koma fram í myndinni.



Ásakanir um ítrekaða og grófa kynferðislega áreitni eða ofbeldi Weinstein komust í hámæli fyrr í vetur og hrundu þær af stað MeToo-byltingunni svonefndu. Fjöldi valdamikilla karla hefur þurft að stíga til hliðar eftir öldu uppljóstrana um framferði þeirra í gegnum tíðina.


Tengdar fréttir

New York ríki kærir fyrirtæki Weinstein

Weinstein hefur verið sakaður um kynferðisofbeldi og áreitni í garð fjölda kvenna síðustu misseri, þar á meðal þekktra leikkvenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×