Erlent

Hressilegar hreinsanir í hernum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Salman, sem sést hér fyrir miðju, hefur látið til sína taka frá því að hann settist á valdastól árið 2015.
Salman, sem sést hér fyrir miðju, hefur látið til sína taka frá því að hann settist á valdastól árið 2015. Vísir/Getty
Salman, konungur Sádí-Arabíu, hefur stokkað upp í herliði landsins. Ríkisfjölmiðill landsins greindi frá því í morgun að öllum helstu hershöfðingum landsins, jafnt í lofti, láði sem og legi, hefur verið skipt út á einu bretti - rétt eins og yfirmanni hermála.

Tímasetning ákvörðunar konungsins er sögð merkileg í ljósi þess að hersveitir Sáda standa nú í stríði við nágranna sína í suðri, Jemen. Átökin hafa staðið yfir í rúm þrjú ár og ekki sér enn fyrir endann á vopnaskakinu þar, sem margir hafa viljað kalla „Gleymda stríðið.“

Salman hefur þó verið duglegur við að hrista upp í hlutunum í Sádí-Arabíu. Á síðasta ári voru fjölda margir háttsettir meðlimir konungsfjölskyldunnar handteknir í rassíu konungsins gegn spillingu og valdníðslu í landinu. Þá hefur hann einnig stóraukið réttindi kvenna, nú síðast með því að leyfa þeim að gegna herþjónustu eins og Fréttablaðið greindi frá í morgun.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×