Skoðun

Um læknadóp

Lára G. Sigurðardóttir skrifar
Orðið læknadóp heyrist reglulega í fjölmiðlum; „Læknadóp rokið upp í verði“ eða „Dauði af ofneyslu er oftast vegna læknadóps“. Orðið læknadóp er bæði skrýtið og óheppilegt. Samkvæmt íslenskri orðabók er orðið dóp skilgreint sem eiturlyf. Einnig kemur fram að orðið dóp er vont íslenskt mál og að leitast ætti við að nota eiturlyf í stað þess. Orðið læknadóp ber með sér að hér sé um að ræða sérstök eiturlyf fyrir lækna eða eiturlyf sem læknar dreifa. Með þessum orðskýringum þá eru lyfjafyrirtækin í dópframleiðslu.

Hér er í raun verið að tala um lyf sem er ávísað í þeim tilgangi að lina þjáningar, t.d. sterk verkjalyf og geðlyf. Þessi lyf geta verið blessun fyrir bæði sjúka og aðstandendur þeirra. Ávísun á slík lyf er í samræmi við siðareglur lækna (Codex Ethicus), sem birtast m.a. í ritinu „Góðir starfshættir lækna“ sem gefið er út af Embætti landlæknis en þar kemur skýrt fram að læknir verður að sýna sjúklingi sínum samhygð og gera hugsanlegar ráðstafanir til að lina þjáningar og kvalir, hvort sem lækning er möguleg eða ekki.

Einstaklingar sem misnota þetta kerfi geta verið afbragðsleikarar. Læknar eru ekki í hlutverki rannsóknarlögreglu og hafa ekki menntun til að kryfja framburð sjúklings. Þegar einhver grætur fyrir framan þig af sársauka eða segist ekki hafa sofið í margar nætur vegna bakverkja, þá er erfitt að segja „ég get ekkert fyrir þig gert“ eða „hér vantar óyggjandi sönnunargögn“.

Læknar gera það sem þeir geta, t.d. að fletta upp lyfjasögu viðkomandi, og þeir hafa engan ávinning af ávísun lyfja til fíkla. Því tel ég orðið læknadóp afar óheppilegt og í staðinn er hægt að nota orð eins og vímulyf.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×