Skoðun

Laun leiðsögumanna og bílstjóra íþyngja varla ferðaþjónustunni

Kári Jónasson skrifar
Að undanförnu hafa birst í fjölmiðlum fréttir um verðlag í ferðaþjónustunni á Íslandi miðað við önnur lönd. Í augum okkar leiðsögumanna kemur þarna fátt á óvart, og þetta eru sannarlega ekki ný tíðindi.

Við sem störfum í þessum geira höfum löngum vitað að Ísland er ekki ódýrt ferðamannaland, og Ísland er heldur ekki ódýrt fyrir okkur sem hér búum, nema kannski hvað varðar hita og rafmagn allvíða á landinu. Það þarf ekkert að segja okkur um verð á mat hér á landi , hvað þá á öli og víni. Að vísu er ekki erfitt að finna sambærilegt verð á þessum hlutum í sumum nágrannalöndum okkar, en ef við miðum við Þýskaland , þá komum við mjög illa út, svo ekki sé meira sagt. Reyndar er svolítið forvitnilegt að bera saman verð á mat t.d. í Sviss og Þýskalandi, en þar er á stundum himinn og haf á milli þessara næstu nágranna.

En meginatriðið með þessum skrifum er að koma í veg fyrir að fólk haldi að það séu laun leiðsögumanna og bílstjóra sem séu þess valdandi að við teljumst vera dýrt ferðamannaland. Þvert á móti , því laun þessara stétta eru skammarlega lág, tímakaupið hjá menntuðum leiðsögumönnum í kringum tvö þúsund krónur, sem gerir þá um 300 þúsund á mánuði í grunnlaun , og bílstjórar með enn minna en það. Þessar stéttir eru gjarnan langdvölum að heima, en með löngum vinnudegi og fjarvistum hafa menn í sig og á. Sumir segja að það sé ekki nema fyrir svokallaða „gullborgara“ að stunda þessi störf, en það eru gjarnan menn og konur sem hafa sagt skilið við ævistarfið og og taka þetta að sér sem hlutastörf.

Það eru því ekki þessar stéttir sem eru íþyngjandi fyrir ferðaþjónustuna. Frekar má herma þessa erfiðleika upp á sterka krónu, en hún kemur sér líka vel fyrir allan almenning og þá ekki síður ferðaþjónustufyrirtækin varðandi erlend aðföng.



Höfundur er leiðsögumaður.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×