Erlent

Beita sömu brögðum og í Óskar­s­til­­nefndri mynd til að ná til þing­­manns

Birgir Olgeirsson skrifar
Þingmaðurinn Marco Rubio hefur verið gagrnýndur fyrir ummæli sín eftir skotárásina.
Þingmaðurinn Marco Rubio hefur verið gagrnýndur fyrir ummæli sín eftir skotárásina. Vísir/Getty
Bandaríski þingmaðurinn Marco Rubio fékk heldur harkaleg skilaboð á götum borgarinnar Doral í Flórída í dag. Skilaboðunum var komið til þingmanns með samskonar hætti og í kvikmyndinni Three Billboards Outside EbbingMissouri, sem tilnefnd er til Óskarsverðlauna í ár.

Í kvikmyndinni ákvað móðir, leikin af Frances McDormand, að taka þrjú auglýsingaskilti á leigu til að spyrja lögreglustjóra bæjarins hvers vegna enginn hefði verið handtekinn eftir að dóttur hennar var nauðgað og svo myrt.

Auglýsingaskiltin í Doral voru hins vegar utan á þremur flutningabílum en þar var bent á að þrátt fyrir að fjöldamorð eigi sér stað í skólum þá sé ekki enn búið að herða löggjöf um byssueign í Bandaríkjunum. Er Marco Rubio svo spurður hvernig standi á því? 

Sautján voru skotnir til bana í Marjory Stoneman Douglas-skólanum í Parkland í Flórída í vikunni. Fjölmargir særðust í þessari árás sem var framin af nítján ára pilti vopnuðum öflugu skotvopni sem hann keypti á löglegan hátt í fyrra. 

Samtökin Avaaz, sem berjast fyrir mörgum málefnum víða um heim, borguðu þessi auglýsingaskilti en einn af forsvarsmönnum samtakanna sagði við fréttastofu CNN að íbúar Flórída spyrji hvers vegna Marco Rubio neiti að vernda börnin þeirra. Sagði forsvarsmaðurinn að ummæli Rubio eftir árásina væru gagnrýni verð en Rubio sagði árásina í Parkland vera óútskýranlega. Forsvarsmaðurinn segir þessi ummæli Rubio óafsakanleg. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×