Innlent

Tóku tvo hunda af eigendum sínum vegna vanhirðu

Atli Ísleifsson skrifar
Hundunum hefur verið komið fyrir á fósturheimilum til bráðabirgða með aðstoð Dýrahjálpar. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Hundunum hefur verið komið fyrir á fósturheimilum til bráðabirgða með aðstoð Dýrahjálpar. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Getty
Starfsmenn Matvælastofnunar tóku tvo hunda af eigendum sínum á höfuðborgarsvæðinu í vikunni vegna alvarlegrar vanhirðu og vanfóðrunar.

Í öðru málinu var hvolpur tafarlaust tekinn af eiganda sínum við eftirlit. Í tilkynningu segir að hvolpurinn hafi verið færður í hendur dýralækna til aðhlynningar en að óljóst sé á þessu stigi hvort hann nái sér á strik.

Í hinu málinu voru hundur og köttur teknir af eiganda vegna vanhirðu og slæms aðbúnaðar á heimili þeirra án þess að kröfur stofnunarinnar um úrbætur væru virtar.

„Hvorki hundurinn né kötturinn voru á eftirlitsstað við framkvæmd vörslusviptingar og neitaði umráðamaður í fyrstu að veita upplýsingar um dvalarstað dýranna. Haft var upp á hundinum en ekki hefur enn tekist að finna köttinn, áfram verður unnið að því þannig að hægt verði að koma honum til hjápar.

Hundunum hefur verið komið fyrir á fósturheimilum til bráðabirgða með aðstoð Dýrahjálpar. Matvælastofnun þakkar Dýrahjálp fyrir aðkomu sína að málinu,“ segir í tilkynningu frá Matvælastofnun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×