Erlent

Frans páfi vill efla baráttu gegn ofbeldi

Þórdís Valsdóttir skrifar
Frans páfi er í vikulangri heimsókn í Suður Ameríku um þessar mundir.
Frans páfi er í vikulangri heimsókn í Suður Ameríku um þessar mundir. Vísir/getty
Frans páfi er í heimsókn í Perú um þessar mundir og lagði orð í belg um ofbeldi gegn konum í Suður Ameríku. Páfinn segir ofbeldi sem konur verða fyrir í álfunni vera „plágu“ sem þarf að kljást við. BBC greinir frá.

„Það eru svo mörg dæmi um ofbeldi sem þaggað er niður í á bakvið svo marga veggi,“ sagði Páfinn í messu í bænum Trujillo í Perú á laugardag.

Helmingur þeirra 25 landa með hæstu tíðni morða á konum í heiminum eru í Suður Ameríku samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum.

 „Ég biðla til ykkar að berjast gegn þessari uppsprettu þjáninga, þar á meðal með löggjöf og menningu sem hafnar hvers kyns ofbeldi,“ sagði Frans páfi.

Móðgaði þolendur misnotkunar

Frans páfi hefur verið í Perú frá því á fimmtudag eftir að hafa verið í Síle. Í Síle reitti páfinn þolendur misnotkunar til reiði með því að saka þolendurna um að rægja biskup í landinu.

Þolendurnir sem voru misnotaðir af kaþólska prestsinum Fernando Kardima sökuðu biskupinn um að hylma yfir brotum prestsins.

Páfinn sagði að „engar sannanir“ væru fyrir því að biskupinn, Juan Barros, hafi hylmt yfir með níðingsprestinum. „Það er ekki eitt einasta sönnungargagn gegn honum. Þetta er allt rógur. Er það skilið?,“ sagði páfinn. Hann sagði einnig við blaðamenn á svæðinu að hann myndi ræða málið frekar ef einhver sönnunargögn gegn Barros kæmu upp á yfirborðið.

Níðingspresturinn Kardima var sakaður um að hafa misnotað fjölda unglingsstráka í höfuðborginni Santiago frá árinu 1980. Vatíkanið dæmdi hann sekann árið 2011 og dæmdi hann til lífslangrar betrunar og bæna. Kardima var ekki sóttur til saka í Síle því brotin voru fyrnd.

Þolendur Kardima hafa borið vitni um að Barros biskup hafi verið vitni að misnotkuninni.

„Það sem páfinn hefur gert hérna í dag er móðgandi og særandi, ekki einungis við okkur, heldur alla sem vilja binda enda á misnotkun,“ sagði einn þolenda Kardima í viðtali við BBC.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×