Viðskipti innlent

Lækkuðu verðið um 40 prósent eftir símtal frá blaðamanni

Ingvar Þór Björnsson og Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifa
Matvara til sölu í kjörbúð Þrastarlundar.
Matvara til sölu í kjörbúð Þrastarlundar. vísir/sveinn
Vakin var athygli á því á Twitter í dag að 750 millilítra vatnsflaska í Þrastarlundi í Grímsnesi kostaði 750 krónur. Ein króna millilítrinn. Netverjar vitnuðu í Lion King og annar lét lögregluna vita. Greinilegt að margir voru á því að verðið væri alltof hátt.

Blaðamaður hjá Mbl.is heyrði í Sverri Einar Eiríkssyni, eiganda Þrastarlundar sem komist hefur í fréttirnar fyrir viðskipti með íbúðirgull og dögurð í Þrastarlundi undanfarin misseri. 

Sverrir sagði að verð á vörum staðarins tæki mið af verðlagi annars staðar og ef verð á vatninu væri miklu hærra en á öðrum stöðum þyrfti að skoða það. 

Sverrir Einar Eiríksson hefur vakið athygli fyrir ýmis viðskipti undanfarin ár.Vísir
„Stundum verðleggjum við of lágt og auðvitað getur komið fyrir að við verðleggjum of hátt, en ég vona að svo sé ekki,“ sagði Sverrir sem kannaði betur málið varðandi verðið á vatninu. 

Í ljós kom að verðið hefði verið alltof hátt undanfarna sex mánuði, fyrir mistök að sögn Sverris.

Sagðist Sverrir hafa lækkað verðið í 450 krónur fyrir 750 millilítra flösku. Eins lítra flaska kosti aftur á móti 500 krónur. Eitt símtal blaðamanns virðist því hafa lækkað verðið á Icelandic Glacial vatni um 40-50 prósent. 

Þrastarlundur er vinsæll veitingastaður hjá ferðamönnum og versla margir í kjörbúðinni þar á leið sinni um landið. Einnig heimsækja margir Íslendingar Þrastarlund og eru áhrifavaldar á samfélagsmiðlum duglegir að auglýsa staðinn.

Að neðan má sjá tístið hennar Marsibil sem vakti upphaflega athygli á verðinu. 

 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×