Innlent

Dalvíkingar vilja líka láta moka fyrir sig

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Snjómokstur er afar mikilvægur í samgöngum hér á landi. Fréttablaðið/Pjetur
Snjómokstur er afar mikilvægur í samgöngum hér á landi. Fréttablaðið/Pjetur
Umhverfisráð Dalvíkurbyggðar segist fagna því að Vegagerðin sjái nauðsyn þess að auka snjómokstur í Svarfaðardal en kveðst furða sig á því í hverju aukningin felist því hún muni ekki nýtast öllum íbúum í Svarfaðar- og Skíðadal.

Haukur Gunnarsson, formaður umhverfisráðsins, segir að aukningin sé öll að vestanverðu og ekki einu sinni fram allan dalinn þar heldur að afleggjaranum að Tungurétt. „Það snjóar jafn mikið að austan og vestan,“ útskýrir Haukur.

„Það er með hreinum ólíkindum að Vegagerðin skuli leyfa sér að mismuna íbúum dalanna um umferðaröryggi eftir því hvar þeir búa,“ segir umhverfisráðið. Skólabíll fari í báða dalina alla virka daga og íbúar þar sæki vinnu til Dalvíkur.

„Í báðum dölunum eru ferðaþjónustufyrirtæki sem þurfa á góðri vetrarþjónustu að halda. Einnig má geta þess að á þeirri leið sem Vegagerðin leggur til að aukin þjónusta verði, eru einungis tvö af tólf mjólkurbúum í dölunum og sækir mjólkurbíllinn mjólk á þriðjudögum, fimmtudögum og laugardögum,“ segir umhverfisráðið sem krefst þess að í fyrirhuguðu snjómokstursútboði verði gert ráð fyrir sjö daga þjónustu í Svarfaðardal og Skíðadal.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×