Sport

Vilja bæta samfélagið með þátttöku barna af erlendum uppruna í íþróttum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Frá leik Leiknis þar sem krakkar með ólíkan uppruna fengu að leiða leikmenn inn á völlinn.
Frá leik Leiknis þar sem krakkar með ólíkan uppruna fengu að leiða leikmenn inn á völlinn. Vísir/Ernir
Reykjavíkurborg ætlar að fara af stað með tilraunaverkefni í Breiðholti þar sem stefnt er að því að fjölga börnum á aldrinum 7-15 ára í íþróttum með sérstökum áherslum á börn af erlendum uppruna.

Verkefnið ber heitið TUFF sem stendur fyrir The Unity of Faiths Foundation og gengur út á að nota tómstundir og íþróttir markvisst til þess að styrkja sjálfsmynd og sjálfsöryggi barna og ungmenna, kynna viðurkennd gildi íslensks samfélags og grunnréttindi þeirra og skyldur.

TUFF hefur skipulagt sambærileg verkefni víðsvegar í London frá árinu 2013 ásamt því að reka þau í Brussel og Ástralíu. Á heimasíðu TUFF segir að takmark verkefnisins sé að sameina fólk úr öllum öngum samfélagsins óháð trúarbrögðum eða menningar- og félagslegum bakgrunni.

Hverfisstjóri Breiðholts, Óskar Dýrmundur Ólafsson, fer með umsjón verkefnisins sem er rekið af Reykjavíkurborg. Þjónustumiðstöðin í Breiðholti mun stýra verkefninu en að því koma grummskólar, tómstundamiðstöðvar, íþróttafélög, Lögreglustjórinn í Reykjavík, mannréttindaskrifstofa, ÍTR og ÍBR. Þá hafa ÍSÍ og KSÍ lýst yfir stuðningi sínum við verkefnið.

 

Óskar Dýrmundur Ólafsson, hverfisstjóri Breiðholts
„Þetta er nálgun sem hefur ekki verið reynd hér áður. Við þekkjum vel til íþróttastarfs hér á Íslandi, sem er frábært og uppbyggilegt, en við erum að horfa upp á það að samfélagið er að breytast. Breytingin birtist sérstaklega í borgum, það eru margir nýir að flytjast í Breiðholtið alls staðar að úr heiminum,“ sagði Óskar Dýrmundur í viðtali við Hjört Hjartarson í Akraborginni.

„Við viljum vinna að því að fá krakkana til þess að starfa betur saman og tala betur saman í gegnum íþróttir. Víðast hefur það verið fótbolti, en þetta fellur undir allar íþróttir.“

Hann sagði að þó að aðalmarkmið verkefnisins sé ekki að fjölga krökkum í fótbolta í Leikni og ÍR þá sé ætlast til þess að með verkefninu fjölgi krökkum í íþróttum.

„Íþróttir eru grunnurinn að góðu forvarnarstarfi og undirbýr fólk fyrir lífið.“

„Aðalmarkmiðið er það að fá krakkana til þess að skilja betur hvort annað og þá foreldrana í leiðinni. Verkefnið á að ganga út á það að styðja börnin til þess að verða betri manneskjur sem taka þátt í samfélaginu fyrir sig, fjölskyldu sína og fyrir Ísland,“ sagði Óskar.

Unnið verður með öllum trúfélögum samfélagsins en þrátt fyrir að TUFF standi fyrir Unity of Faiths þá er þetta ekki trúarlegt verkefni.

Kostnaður við verkefnið er áætlaður um 5 milljónir króna. Verkefnið er þriggja mánaða prógramm sem er ekki hafið enn þó undirbúningsvinna sé komin af stað. Það mun hefjast með því að bjóða þjálfurum og þeim sem koma að starfi með börnum og unglingum á námskeið, jafnframt sem verður farið í kynningar í grunnskólunum.

Óskar vildi ítreka það að þó áherslan sé á að ná til barna af erlendum uppruna þá sér verkefnið opið öllum börnum í Breiðholti, íslenskum eða erlendum.

„Íþróttahreyfingin hefur virkilega tekið þetta verkefni í fangið og það er áhugavert að vinna í gegnum þennan miðil sem íþróttirnar eru til þess að hjálpa einstaklingum að þroskast og bæta samfélagið í leiðinni,“ sagði Óskar Dýrmundur Ólafsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×