Menning

Gestir taka himingeiminn með sér heim

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Katrín og Lukas búa í Þýskalandi og halda til síns heima strax eftir helgi en verða í Nýlistasafninu við opnun sýningarinnar í dag og svo í listamannaspjalli á sunnudaginn.
Katrín og Lukas búa í Þýskalandi og halda til síns heima strax eftir helgi en verða í Nýlistasafninu við opnun sýningarinnar í dag og svo í listamannaspjalli á sunnudaginn. Vísir/Vilhelm
Þegar blaðamann ber að garði í Nýlistasafninu er myndlistarfólkið Katrín Agnes Klar og Lukas Kinderman í óða önn að hengja upp plaköt á stóran vegg og mynda með þeim sérstakt mynstur. Becky Forsythe sýningarstjóri leggur línurnar. „Grunnurinn að þessu verki er ljósmynd sem ég tók skýjum ofar á flugi milli Íslands og Þýskalands,“ segir Katrín brosandi og bendir á að plakötin verði líka í stöflum á gólfinu til reiðu fyrir gesti sem vilja taka brot af himingeimnum með sér heim.

Myndir Lukasar eru enn í stöflum upp við vegg, þær líkjast vefnaði, þar sem uppistaða og ívaf mynda ólík mynstur. Allt eru það prentverk. Auk þess er hann með þrí­víddarlíkön af ýmsum hlutum, meðal annars einum grip úr geimnum. Distant Matter útleggst sem Fjarlægt efni og í sýningunni er unnið með fjarlægðir í víðum skilningi orðsins.

Katrín og Lukas eru par. Þau búa og starfa í München í Þýskalandi en Katrín er dóttir Ingu Ragnarsdóttur, myndlistarkonu og fararstjóra, og hefur verið viðloðandi Ísland frá fyrstu tíð. Lukas er þýskur en er orðinn lunkinn í íslenskunni líka enda kveðst hann oft hafa komið til landsins síðustu tíu ár, eða frá því þau Katrín kynntust.

„Við vorum í sama listaháskóla í Þýskalandi og hittumst þar,“ segir hann brosandi. „Það heitir Media-myndlist sem við lærðum, þá aðallega nýmiðlunarlist, vídeó og svoleiðis en nú erum við bæði mikið að vinna í alls konar prenttækni og í verkum sem snúast dálítið um miðlunina sjálfa,“ botnar Katrín. Þau segjast bæði hafa alist upp við myndlist heima fyrir og þar hafi brautin verið lögð á vissan hátt.

Katrín og Lukas hafa sýnt víða í Evrópu, ýmist saman eða með öðrum en er Distant Matter þeirra fyrsta sýning hér á landi? „Fyrsta stóra sýningin,“ segir Katrín. „Við vorum með litla sýningu á Seyðisfirði 2014 og meðal gesta þar var Becky Forsythe sýningarstjóri, eftir það kviknaði hugmyndin hjá henni um að fá okkur hingað í Nýlistasafnið. Undanfarið höfum við verið í þéttu sambandi við hana við að velja verkin.“

Distant Matter verður opnuð í dag í Nýlistasafninu, Marshallhúsinu, milli klukkan 17 og 19. Á sunnudaginn klukkan 14 verður gestum boðið upp á ókeypis leiðsögn og spjall um sýninguna ásamt listamönnunum og sýningarstjóranum. Síðan munu þau Katrín og Lukas rjúka aftur út til Þýskalands til sinna starfa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.