Innlent

Fyrsti dómur í Landsrétti gæti fallið í vikunni

Höskuldur Kári Schram skrifar

Um sjötíu sakamál bíða afgreiðslu Landsréttar sem tekur formlega til starfa í dag. Um er ræða nýtt millidómsstig milli héraðsdóms og Hæstaréttar en forseti réttarins útilokar ekki að fyrsti dómurinn falli í þessari viku. Hún telur ekki að deilur um skipan dómara varpi skugga á störf réttarins.

Fimmtán dómarar munu starfa við Landsrétt en lagafrumvarp um hinn nýja dómstól var samþykkt á Alþingi sumarið 2016.

Hervör Lilja Þorvaldsdóttir forseti Landsréttar segir eitt að markmiðum með Landsrétti sé að draga úr álagi á Hæstarétti.

Landsréttur hefur fengið bráðabirgðahúsnæði við Vesturvör í Kópavogi þar sem Siglingamálastofnun var áður til húsa. Hervör segir að um sjötíu mál bíði nú afgreiðslu og útilokar ekki að fyrsti dómurinn falli í þessari viku.

Miklar deilur spruttu upp þegar skipað var í embætti dómara við réttinn en dómsmálaráðherra fór ekki að tillögum hæfisnefndar. Málið var mjög umdeilt en fjórir, sem ekki voru skipaðir, fóru fram á skaða- og miskabætur vegna þessa. Hervör telur ekki að þetta muni ekki varpa skugga á störf réttarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×