Innlent

Páll orðinn forseti EFTA-dómstólsins

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Páll Hreinsson hefur verið dómari við EFTA-dómstólinn frá árinu 2011.
Páll Hreinsson hefur verið dómari við EFTA-dómstólinn frá árinu 2011. Vísir/Ernir
Páll Hreinsson hefur verið skipaður forseti EFTA-dómstólsins frá og með 1. janúar síðastliðnum. Páll var kjörinn forseti í nóvember á síðasta ári.

Páll, sem var Hæstaréttardómari áður en hann tók sæti í EFTA-dómstólinum sem fulltrúi Íslands árið 2011, mun gegna embætti forseta dómstólsins til 31. desember 2020, að því er kemur fram í tilkynningu frá dómstólnum.

Tekur hann við embætti af Carl Baudenbacher sem verið hefur forseti dómstólsins frá 2003 en daginn eftir að Páll var kjörinn forseti tilkynnti Baudenbacher að hann hyggðist hætta sem dómari í dómstólnum.

Baudenbacher tók við sem forseti dómstólsins af Þóri Vilhjálmssyni og mun Páll því verða annar Íslendingurinn sem gegnir embætti forseta dómstólsins sem stofnaður var árið 1994.

EFTA-dómstóllinn hefur lögsögu yfir EFTA-ríkjum sem eiga aðild að EES-samningnum, það er Íslandi, Liechtenstein og Noregi. Hlutverk dómstólsins er fyrst og fremst að tryggja samræmda túlkun og beitingu EES-samningsins og þeirra ákvæða í löggjöf ESB sem tekin eru efnislega upp í þann samning, líkt og segir á Evrópuvefnum.

Þrír dómarar eiga sæti í dómstólnum og situr Páll fyrir Íslands hönd.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×