Innlent

Fyrrverandi landgönguliði grunaður um að hafa ætlað að fremja hryðjuverk í San Francisco

Birgir Olgeirsson skrifar
Er hann grunaður um að hafa ætlað að gera árás á Pier 39, verslunarmiðstöð sem reist var á bryggju og er afar vinsæl á meðal ferðamanna.
Er hann grunaður um að hafa ætlað að gera árás á Pier 39, verslunarmiðstöð sem reist var á bryggju og er afar vinsæl á meðal ferðamanna. Vísir/Getty
Bandaríska alríkislögreglan, FBI, hefur handtekið fyrrverandi landgönguliða sem grunaður er um að hafa ætlað að fremja hryðjuverk í borginni San Francisco yfir jólin.

Fréttastofa breska ríkisútvarpsins BBC greinir frá því að landgönguliðinn fyrrverandi sé hinn 25 ára gamli Everitt Aaron Jameson. Er hann sagður hafa verið handtekinn eftir að hafa rætt fyrirætlanir sínar við fulltrúa bandarísku alríkislögreglunnar sem villti á sér heimildir.

Er hann grunaður um að hafa ætlað að gera árás á Pier 39, verslunarmiðstöð sem reist var á bryggju og er afar vinsæl á meðal ferðamanna.

Yfirvöld segja að skotvopn, erfðaskrá og bréf, þar sem hann lýsir yfir ábyrgð á árásinni, hafa fundist á heimili mannsins.

Er hann sagður hafa minnst á ákvörðun Donald Trump forseta Bandaríkjanna, um að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísrael, í bréfinu.

FBI segist hafa beint sjónum sínum að Jameson þegar hann lýsti yfir stuðningi við hryðjuverkasamtökin ISIS á samfélagsmiðlum í september síðastliðnum.

Hafði hann meðal annars lýst yfir stuðningi vegna hryðjuverkaárásar í New York í október síðastliðnum þar sem vörubíl var ekið inn í hóp fólks.

Þeir sem fóru með rannsókn málsins eru á því að Jameson hafi ætlað að notast við sprengiefni til að króa fólk inni svo hann gæti myrt sem flesta.

BBC segir Jameson hafa farið í gegnum inngöngupróf fyrir landgöngulið bandaríska hersins en var leystur frá störfum fyrir að hafa ekki greint frá því að hann væri með astma. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×