Körfubolti

Ívar: Fyrsti leikhluti var ekki körfubolti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ívar með sínum mönnum.
Ívar með sínum mönnum. vísir/eyþór
„Við hertum vörnina aðeins í seinni hálfleik. Vörnin í fyrri hálfleik var skelfileg. Í seinni hálfleik stöðvuðum við [Austin Magnus] Bracey. Emil [Barja] og Hjálmar [Stefánsson] tóku hann út úr leiknum,“ sagði Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, aðspurður hvað hefði skilað sigrinum á Val í kvöld.

„Við fengum alltof mikið af hraðaupphlaupum á okkur í fyrri hálfleik. Við stoppuðum það og þá varð þetta okkar leikur. Þeir spila hratt og það er mikið skorað. Fyrir leikinn vildum við hægja aðeins á honum en það heppnaðist ekki alveg nógu vel.“

Haukar skoruðu 39 stig í 1. leikhluta og hittu úr öllum skotum sínum inni í teig. Ívar hafði hins vegar engan húmor fyrir háu stigaskori.

„Fyrsti leikhluti var eins og borðtennisleikur. Þetta var ekki körfubolti að mínu mati. Við gerðum ekki það sem við ætluðum að gera, að róa leikinn og stjórna hraðanum. En við gerðum betur í seinni hálfleik,“ sagði Ívar.

„Ég vil hrósa Valsmönnum. Þeir eru hörkuduglegir, leggja sig fram og eru að gera góða hluti.“

Eftir sigurinn í kvöld er ljóst Haukar verða á toppnum fram á nýja árið þegar keppni í Domino's deildinni hefst aftur.

„Við erum í efsta sæti og enn í bikarnum. Við erum gríðarlega sáttir en þurfum að halda okkur á jörðinni. Við erum ekki búnir að vinna neitt ennþá. Mótið er bara hálfnað og við þurfum að halda haus,“ sagði Ívar að endingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×