Innlent

Segir að alþingismenn og fulltrúar SA ættu að skammast sín

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Mikil örtröð hefur verið á Keflavíkurflugvelli í dag sökum verkfallsins.
Mikil örtröð hefur verið á Keflavíkurflugvelli í dag sökum verkfallsins. Vísir
Kristján Þórður Snæbjörnsson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, segir að það sé hjákátlegt að fylgjast með ráðherrum ríkisstjórnarinnar og fulltrúum Samtaka atvinnulífsins í kjaradeilu Flugvirkjafélags Íslands, Icelandair og Samtaka atvinnulífsins.

„Það er hjákátlegt að fylgjast með ráðherrum ríkisstjórnarinnar og fulltrúum Samtaka atvinnulífsins koma fram og vara við því að þessi hópur fái launahækkun sem er svo rífleg og ef þeir fái hækkunina þá muni allt fara á hliðina,“ segir Kristján í pistli sem hann birtir á vefsíðu Rafiðnaðarsambandsins í dag. „Það er ekki langt síðan að kjararáð úrskurðaði að alþingismenn og fleiri hópar í efsta lagi þjóðarinnar skuli hækka um 45% og það á einu bretti, á einum degi, sumir þeirra fengu launahækkun afturvirkt,“ skrifar hann.

Þá segir hann að það sé þessum aðilum verulega til minnkunar að vara við launahækkunum. „Að koma núna fram og vara við því að almennt launafólk megi ekki fá svona miklar hækkanir, sem er innan við helmingur af þeirra eigin launahækkun, því þá fari allt á hliðina. Þeir ættu hreinlega að skammast sín að vera ekki búnir að bregðast við kröfum almennings um að alþingismenn fylgi sömu línu og aðrir því geri þeir það ekki muni aðrir sækja sér samanburð í þeirra launahækkun,“ skrifar hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×