Menning

Helmingur útgáfu Guðrúnar tilnefndur

Jakob Bjarnar skrifar
Guðrún ánægð með sína höfunda, Jón Kalman og Bergþóru Snæbjörnsdóttur sem bæði hlutu Gullmiðann í ár.
Guðrún ánægð með sína höfunda, Jón Kalman og Bergþóru Snæbjörnsdóttur sem bæði hlutu Gullmiðann í ár. visir/sigurjón ragnar
Ný útgáfa Guðrúnar Vilmundardóttur, Benedikt, byrjar með látum. Vísir ræddi við Guðrúnu í kjölfar þess að tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, Gullmiðinn til styttingar, voru gerðar heyrinkunnar.

„Það má orða það þannig að annað hvert íslenskt skáldverk hafi fengið tilnefningu. Ég gef út fjögur í ár, skáldsögurnar Saga Ástu eftir Jón Kalman, Formaður húsfélagsins eftir Friðgeir Einarsson, Um lífsspeki ABBA og Tolteka eftir Adolf Smára og ljóðabókina Flórída eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur; og Jón Kalman og Bergþóra hlutu tilnefningu,“ segir Guðrún Vilmundardóttir útgefandi á forlaginu Benedikt.

Ánægð með útgáfulista sinn

Guðrún er ánægð með sig og má vera það. Tvær bóka Benedikts fengu Gullmiðann í flokki fagurbókmennta. Tvær af fimm. Frábær árangur fyrir ekki stærra forlag. Guðrún býr að því að margir af okkar bestu höfundum vildu gefa út hjá henni.

„Jóni Kalman starfaði ég með hjá Bjarti í þau 10 ár sem ég vann þar. Ég gaf út fyrstu bók Friðgeirs, smásagnasafnið Takk fyrir að láta mig vita í fyrra, en Adolf Smári og Bergþóra eru nýir höfundar sem gáfu sig fram við mig í vor,“ útskýrir Guðrún og heldur áfram að þylja upp af útgáfulista sínum.

Jón Kalman er tilnefndur og ekki í fyrsta skipti.visir/stefán
„Auk þess hef ég á árinu gefið út sex þýðingar; þrjár með hækkandi sól, í bókaklúbbinum Sólinni, Við ættum öll að vera femínístar sem Kvenréttindasambandið keypti 4.400 eintök af og gaf öllum 17 ára nemendum í menntaskólum landsins; Norrænar goðsagnir eftir Neil Gaiman og Mig langar svo í krakkakjöt, dásamlega franska barnabók, nú í haust. Og svo má ekki gleyma matreiðslubókinni! Hún Berglind Guðmundsdóttir, einn vinsælasti matarbloggari landsins, bankaði upp á hjá okkur í sumar og við unnum saman gullfallega matreiðslublók, Gulur, rauður, grænn & salt, fallegan grip sem er sannarlega gaman að gefa út.“

Auður Ava hlaut verðlaunin í fyrra

Guðrún stofnaði útgáfuna síðasta haust og gaf þá út fimm bækur, meðal annars skáldsöguna Ör eftir Auði Övu Ólafsdóttur.

„Já, sem hlaut tilnefningu til bókmenntaverðlaunanna og fékk verðlaunin, þegar þeim var úthlutað í febrúar. Einnig gaf ég út fyrstu skáldsögu Sigríðar Hagalín Björnsdóttur, Eyland, sem hlaut góðar undirtektir. Fimm bækur í fyrra og ellefu í ár. Eða raunar þrettán, því ég gaf Ör og Eyland einnig út í kilju. Enda er nóg að gera.“

Ekki ákjósanlegt fyrirkomulag með Bjart til lengdar

Guðrún var áður útgáfustjóri hjá Bjarti og það kom mörgum á óvart þegar hún hætti þar og stofnaði nýtt forlag. Af hverju yfirgafstu Bjart?

„Ég hafði starfað hjá Bjarti í tíu hamingjurík ár og það var kominn tími til að breyta til. Ég hóf þar störf hjá Snæbirni Arngrímssyni, sem stofnaði útgáfuna. Þegar Pétur Már Ólafsson keypti Bjart þremur árum síðar og sameinaði Veröld, sem hann hafði áður sett á fót með Ólafi Ragnarssyni, var ég gerð að útgáfustjóra Bjarts, með fullt sjálfstæði. Það var fyrirkomulag sem gekk mjög vel í nokkur ár, ég vona að ég hafi gert Bjarti gagn, það var svo sannarlega mitt markmið. En þetta var kannski ekki ákjósanlegt fyrirkomulag til lengdar.“

Auður Ava fylgdi Guðrúnu yfir til Benedikts.visir/anton brink
En, af hverju Benedikt?

Mér þótti vænt um Bjart, fannst oft einsog við værum gott lið þó hann væri vörumerki en ekki manneskja. Svo ég vissi strax að ég væri að leita að mannsnafni á mína nýju útgáfu. Fjalla-Bensi er hjartahein og góð sögupersóna úr Aðventu Gunnars Gunnarssonar, ég átti bróður sem hét Benedikt og merking nafnsins er falleg og hæfir bókaútgáfu.“

Gullmiðinn fær bækurnar til að rjúka út

Bækistöðvar Benedikts eru vestur í bæ, við hliðina á stærsta útgefanda landsins, Forlaginu.

„Örlögin höguðu því þannig að Bjartur flutti en ég varð um kyrrt. Bjartur & Veröld fluttu á Víðimel, auglýsingastofan Dynamo Reykjavík flutti í gamla húsnæði Bjarts á Bræðraborgarstíg, og ég fékk inni þar með mitt fyrirtæki. Það er sérlega hentugt fyrirkomulag að reka bókaútgáfu og auglýsingastofu hlið við hlið og samstarfið hefur verið í miklum blóma – Dynamo á til dæmis heiðurinn af útlitinu á matreiðslubókinni og flestum okkar kápum.“

En, varðandi þessar tilnefningar, skipta þær máli að teknu tilliti til bóksölu?

„Það er nú það, hvað tilnefningarnar skipti miklu máli fyrir bóksölu. Þetta er auðvitað ákveðinn gæðastimpill; viðurkenning fyrir þekktari höfunda og vekur athygli á nýjum. Ég kýs að líta svo á, nú þegar tvær tilnefningar eru í höfn, að þær fái bækurnar til að rjúka út, enn hraðar en til þessa! Fyrst og fremst er þetta þó heiður og klapp á bakið. Og fyrir litla útgáfu einsog Benedikt er þetta einsog risastór blómvöndur og konfektkassi.“

Stefnir á formennsku í Fíbút

Egill Örn Jóhannsson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda til margra ára, ætlar ekki að gefa kost á sér á aðalfundi sem haldinn verður í byrjun næsta árs. Er það rétt sem ég heyri að þú stefnir að formennsku í Fibut?

„Ég hef setið í stjórn Fíbút síðan ég hóf störf við bókaútgáfu árið 2006 og hef áhuga á störfum félagsins. Já, mér skilst að núverandi formaður, Egill Örn hjá Forlaginu ætli ekki að sækjast eftir endurkjöri á aðalfundi sem verður haldinn í febrúar. Félagið var stofnað 1889 en enn hefur engin kona gengt formennsku í félaginu og það hefur hvarflað að mér að gera atlögu að því að breyta því. En þetta er satt að segja ekki það sem maður er með hugann við núna þegar allt snýst um að kynna og selja bækur fyrir jólin.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×