Innlent

„Harmleikur tveggja systra og viðkvæmra sála“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hlín Einarsdóttir og Malín Brand þegar mál þeirra var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra en þinghald í málinu var lokað.
Hlín Einarsdóttir og Malín Brand þegar mál þeirra var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra en þinghald í málinu var lokað. vísir/eyþór
Málflutningur í máli ákæruvaldsins gegn Malín Brand fór fram fyrir Hæstarétti í morgun. Malín áfrýjaði 12 mánaða fangelsisdómi, þar sem níu mánuðir voru skilorðsbundnir, sem hún hlaut í apríl á þessu ári fyrir að hafa gert tilraun til að kúga fé út úr Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þáverandi forsætisráðherra, í maí 2015.

Systir hennar, Hlín Einarsdóttir, var einnig dæmd í 12 mánaða fangelsi, einnig þar af níu mánuði skilorðsbundna, en hún áfrýjaði ekki dómnum. Þá voru systurnar jafnframt dæmdar fyrir fullframda fjárkúgun gegn Helga Jean Claessen en þær kúguðu 700.000 krónur út úr honum með því að hóta að kæra hann fyrir nauðgun.

Verjandi Malínar, Björn Þorri Viktorsson, krafðist þess fyrir hönd hennar fyrir Hæstarétti í dag að hún yrði sýknuð af ákæru um fullframda fjárkúgun gegn Helga Jean og svo þess að hún yrði dæmd fyrir hlutdeild en ekki samverknað í þeim hluta málsins sem sneri að Sigmundi Davíð.

Björn Þorri Viktorsson, verjandi Malínar Brand fyrir Hæstarétti.vísir/eyþór
Samband systranna handónýtt eftir að málið kom upp

Björn Þorri sagði að málið vera hreinan og kláran fjölskylduharmleik og að samband systranna, þeirra Malínar og Hlínar, hefði orðið handónýtt eftir að málið kom upp. Hann sagði að það sem Malín hefði vitað um málið hefði verið komið frá Hlín. Malín gat ekki haldið annað en að þær upplýsingar sem hún hafði frá Hlín um það hvað hafði gerst á milli hennar og Helga, það er að hann hefði brotið gegn henni kynferðislega á laugardeginum fyrir páska 2015, væru réttar.

„Hún veit ekki annað en það sem hún hefur frá Hlín. Það er ekki deilt um það að Malín og Hlín hittu Helga Jean á annan í páskum við World Class og það er ekki deilt um það sem þar gerðist. Það er alveg ljóst að Hlín var í gríðarlegu uppnámi, enginn deilir um það, hún veittist þarna að Helga og átti mjög erfitt með þann fund. Það er mikilvægt að halda því til haga að ákærða Malín gat ekki annað en lagt til grundvallar þá upplifun sem hún hafði af málinu. Þá er algjörlega ljóst að Malín gat ekki haldið annað en að þessi atburður hefði átt sér stað,“ sagði Björn Þorri og vísaði í hið meinta kynferðisbrot en kæra Hlínar vegna þess var felld niður hjá ákæruvaldinu á sínum tíma og fór málið ekki lengra.

Sveinn Andri Sveinsso, réttargæslumaður í málinu, og Daði Kristjánsson, saksóknari, í Hæstarétti í morgun.vísir/eyþór
Sagði Malín augljóslega hafa blekkt Helga Jean

Daði Kristjánsson, saksóknari í málinu, sagði að Malín, sem hafði milligöngu um greiðslu Helga Jean til Hlínar, hefði augljóslega blekkt hann þegar hún veitti honum rangar upplýsingar varðandi meint kynferðisbrot og stöðu þess mál.

Þannig hafi Malín sagt Helga að lyf hafi fundist í blóði Hlínar þegar hún fór á neyðarmóttöku Landspítalans á miðvikudeginum eftir páska, nokkrum dögum eftir að hann átti að hafa brotið á henni. Þá sagði hún honum að áverkar hefðu einnig fundist á Hlín. Saksóknari sagði að þessar upplýsingar hefðu einfaldlega verið rangar.

„Meðákærða [Hlín] bar um það fyrir héraðsdómi að hafa sagt ákærðu [Malín] frá rannsókninni en kannaðist ekki við að hafa sagt eitthvað um lyf eða áverka. [...] Ákærða sagði að meðákærða hafi sagt að hún væri með áverka og að hún hefði verið með lyf í blóðinu en það voru engin lyf í blóði meðákærðu. [...] Því gengur ekki upp sá framburður ákærðu um það að hún hafi fengið upplýsingar frá meðákærðu að það væri eitthvað að finna í blóðinu,“ sagði saksóknari.

Þá sagði hann jafnframt að það væri ekki rétt sem Malín hefði sagt Helga um það að málið væri komið í ferli hjá lögmanni.

Malín hefði talið Helga trú um að það væri best að leysa málið í sátt því annars færi málið til lögreglu. Saksóknari sagði að Malín hefði beitt til augljósum blekkingum og farið rangt með upplýsingar.

Hvað varðaði tilraun til fjárkúgunar gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þáverandi forsætisráðherra, sagði saksóknari að ákæruvaldið hafnaði því að hlutur Malínar hefði verið minni í því broti en hlutur Hlínar.

Helst bæri að líta til þess að Malín hefði farið með Hlín út í Hafnarfjarðarhraun til að veita peningunum viðtöku en eins og kunnugt er voru þær handteknar þar þar sem lögreglan hafði komist á snoðir um fyrirætlanir þeirra. Þá mætti einnig líta til þess að Malín hefði fengið lánaðan bíl til að fara á út í hraunið og hún hefði prentað út bréf og ritað nafn eiginkonu Sigmundar Davíðs á umslagið fyrir bréfið.

Hólmgeir Elías Flosason, verjandi Malínar, Malín Brand, Kolbrún Garðarsdóttir, verjandi Hlínar, og Hlín Einarsdóttir í dómasal þegar málið var þingfest.vísir/eyþór
„Ekkert ljótt eða illt“

Verjandi Malínar sagði, eins og áður var rakið, að þær upplýsingar sem hún hefði um það sem gerst hefði á milli systur sinnar og Helga væru frá Hlín komnar. Þá sagði hann Malín ekki hafa haft í hótunum við Helga heldur hefði náðst „frjálst samkomulag“ þeirra á milli eins og hann orðaði það.

„Það er ekkert sem bannar það að fólk hafi milligöngum um að ljúka málum með þessum hætti og í góðri trú. Það er bara eðlilegt. Malín vildi ljúka þessum málum svo báðir aðilar gætu haldið haus, systir hennar annars vegar og vinur hennar eða kunningi til tíu ára hins vegar. Þetta var ekkert ljótt eða illt,“ sagði Björn Þorri. Þá nefndi hann að Hlín hefði vissulega upplifað samskipti hennar og Helga Jean sem nauðgun, það hefði komið fram í geðmati geðlæknis á Hlín.

Björn Þorri rakti það jafnframt að Helga Jean hefði verið mikið í mun að ljúka málinu með greiðslu eða sátt og að hann hefði ýtt á eftir málinu í samskiptum sínum við Malín.

„Samband þeirra systra verður handónýtt eftir að þetta mál kemur up og þetta er hreinn og klár fjölskylduharmleikur,“ sagði Björn Þorri.

Hann sagði síðan framburð Malínar stöðugan og trúverðugan og að ekki væri beinlínis hægt að hrekja neitt af honum. Hlín hefði stýrt þessari atburðarás, hún hefði verið sú eina sem vissi hvað gerðist á milli hennar og Helga og hún vildi til að mynda ekki fara til lögreglunnar.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins þegar Hlín og Malín gerðu tilraun til að kúga út úr honum fé í maí 2015. Vísir/Anton
Fjárkúgunin gegn Sigmundi „auðvitað útópískt rugl“

„Malín vissi ekkert um sýnatökur og niðurstöður þess nema í gegnum Hlín. Hún er enginn sérfræðingur í svona málum og gat ekki annað en trúað Hlín. [...] Malín vissi ekki annað en að réttargæslumaður væri kominn að málinu og svo kom það margsinnis fram að henni þótti óþægilegt að vera í þessari stöðu í samskiptum við Helga.

Varðandi svo þann þátt málsins sem sneri að Sigmundi Davíð sagði Björn Þorri að horfa ætti til þess að hlutdeild Malínar væri mun minni en Hlínar.

„Malín hefur lýst því yfir að henni hafi þótt þessi áætlun algjörlega fráleit frá upphafi enda var hún auðvitað útópískt rugl. Þarna var einhvers konar meðvirkni af hálfu Malínar í gangi, hún vill ekki styggja Hlín, hún vill ekki missa Hlín,“ sagði Björn Þorri.

Við lok ræðu sinnar sagðist Björn Þorri telja að refsingin í héraði hefði verið of þung og vísaði hann í aðra dóma. Þá sagði hann málið mjög sérstakt.

„Þetta er harmleikur tveggja systra og viðkvæmra sála,“ sagði Björn Þorri sem áður hafði haft orð á því að lífið hefði farið ómjúkum höndum um Hlín og Malín.

Sveinn Andri Sveinsson, réttargæslumaður Helga Jean, gerði þær kröfur fyrir Hæstarétti að Malín yrði dæmd til greiðslu 1,7 milljóna króna í bætur, það er eina milljón króna í miskabætur og 700 þúsund krónur vegna fjártjóns sem er sama upphæð og hann greiddi systrunum á sínum tíma.

Sveinn Andri lýsti því að skjólstæðingur sinn hefði verið gjörsamlega brotinn þegar ásakanirnar hefðu komið fram og að honum liðið eins og lífið væri búið. Hann hefði brotnað niður og að málið hefði hvílt mjög þungt á honum. Þá hefðu ásakanirnar komið honum í opna skjöldu og vakið upp gömul kvíðaviðbrögð.


Tengdar fréttir

Malín áfrýjar til Hæstaréttar

Malín Brand fékk tólf mánaða fangelsisdóm, þar af níu mánuði skilorðsbundna til tveggja ára, eins og systir hennar, Hlín Einarsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×