Erlent

Spacey til rannsóknar hjá lögregluyfirvöldum í London

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Fjölmargar ásakanir á hendur Spacey hafa komið fram síðustu vikuna.
Fjölmargar ásakanir á hendur Spacey hafa komið fram síðustu vikuna. Vísir/Getty

Lögreglan í Bretlandi hefur nú til rannsóknar ásakanir á hendur leikaranum Kevin Spacey um kynferðisofbeldi.

Lögreglumenn í kynferðisbrotadeild Scotland Yard skoða ásakanir manns sem segir leikarann hafa brotið á sér í London árið 2008 Þegar Spacey starfaði sem listrænn stjórnandi Old Vic leikhússins í London.

Lögreglan hefur ekki viljað staðfesta að um Spacey sé að ræða en það þykir nokkuð ljóst samkvæmt heimildum bresku pressunnar.

Maðurinn sem segir Spacey hafa misnotað sig er nú 32 ára gamall og var því um 23 ára gamall þegar brotið átti sér stað. Hann segir að leikarinn hafi misnotað sig þegar hann var meðvitundarlaus á heimili Spacey. Þar hafi þeir fengið sér drykk saman eftir að maðurinn bað Spacey um ráð varðandi leikferil sinn.

Maðurinn segir að hann hafi vaknað við það að Spacey væri að gera kynferðislega hluti við sig, bað hann að hætta og yfirgaf heimili leikarans þegar hann bað hann um að segja engum frá því sem fram fór.

Sagður hafa áreitt átta samstarfsmenn

Fjölmargar ásakanir á hendur Spacey hafa komið fram síðustu vikuna. Meðal annars hafa tveir aðrir karlmenn sagt að Spacey hafi brotið á þeim þegar þeir voru unglingar. Tökum á sjöttu þáttaröð House of Cards, sem Spacey fer með aðalhlutverk í, hefur verið frestað um óákveðinn tíma en átta einstaklingar hafa sakað Spacey um kynferðislega áreitni á tökustað þáttanna.

Enginn þeirra átta sem saka leikarinn um þetta gerir það undir nafni af ótta við afleiðingar sem það gæti haft á starfsferil þeirra.

Í umfjöllun CNN um málið er því haldið fram að Spacey hafi eitrað andrúmsloft tökustaðarins með hátterni sínu sem hafi verið viðvarandi á meðan tökum stóð. Þessir átta sem um ræðir eru ýmist núverandi eða fyrrverandi starfsmenn þáttanna.

Umfjöllun CNN kemur í kjölfar greinar sem birt var á Buzzfeed þar sem leikarinn Anthony Rapp sagði Spacey hafa áreitt sig kynferðislega árið 1985 þegar Rapp var fjórtán ára gamall og Spacey 26 ára.

Talsmaður Spacey segir að leikarinn leiti sér nú hjálpar.

Ásakanir á hendur Spacey koma í kjölfar hneykslismála tengdum framleiðandanum Harvey Weinstein sem sakaður er um nauðgun og að hafa áreitt tugi kvenna kynferðislega.Þá hafa ásakanir á hendur leikurunum Jeremy Piven og Dustin Hoffman einnig komið fram á síðustu dögum.


Tengdar fréttir

Spacey sagður vera að leita sér hjálpar

Talsmaður bandaríska leikarans Kevin Spacey segir að Spacey leiti sér nú hjálpar eftir að ásakanir um að hann hafi áreitt dreng fyrir um þrjátíu árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×