Körfubolti

Valsmenn höfðu ekki unnið útisigur í næstum því fimmtán ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Austin Magnus Bracey skoraði 30 stig á móti Hetti í gær.
Austin Magnus Bracey skoraði 30 stig á móti Hetti í gær. Vísir/Eyþór
Valsmenn unnu sinn fyrsta sigur í Domino´s deild karla í körfubolta í gærkvöldi þegar þeir sóttu tvö stig á Egilsstaði eftir sigur á Hetti í framlengdum nýliðaslag.

Það er óhætt að segja að Valsmenn hafi mátt þurft að bíða eftir sigri á útivelli í úrvalsdeild. Þetta var nefnilega sá fyrsti í 14 ár, 11 mánuði og 21 dag.

Valsmenn höfðu ekki unnið útileik í úrvalsdeild karla síðan að Hlíðarendaliðið vann 70-66 sigur í Njarðvík 28. október 2002. Þá var þjálfari liðsins Bergur Emilsson og þetta var eini sigur liðsins undir hans stjórn.

Þessi sigur Vals þarna í lok október fyrir fimmtán árum síðan var reyndar merkilegur. Þá var Valsliðið það fyrsta í 19 ár sem vinnur ríkjandi Íslandsmeistara á útivelli eins og sjá má í úttekt Dagblaðsins Vísis hér fyrir neðan.





Valsmenn töpuðu 32 útileikjum í röð frá miðjum nóvember 2002 þar til í október 2017 en alls liðu 5470 dagar á milli útisigra.  Fyrsti útileikur þessa tímabils tapaðist með 31 stigi í Keflavík þar sem Valsmenn fengu á sig 117 stig.

Núverandi þjálfari Valsmanna, Ágúst Björgvinsson, var fyrir leikinn í gær búinn að stýra Valsliðinu í 30 útileikjum í röð í úrvalsdeild án þess að vinna sigur. Það var því örugglega enginn ánægðari í leikslok en hann.



Valsmenn á útivelli í úrvalsdeild karla 2002-2017

2002-03 - Töpuðu 9 síðustu útileikjum sínum

2011-12 - Töpuðu öllum 11 útileikjum sínum

2013-14 -- Töpuðu öllum 11 útileikjum sínum

2017-18 -- Töpuðu fyrsta útileik sínum

Ágúst Björgvinsson.Vísir/Eyþór



Fleiri fréttir

Sjá meira


×