Erlent

Á veiðum vegna vampíruógnar

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögreglan segir að einn maður hafi verið brenndur og annar grýttur til bana.
Lögreglan segir að einn maður hafi verið brenndur og annar grýttur til bana. Vísir/AFP
Yfirvöld Malaví eru nú í umfangsmikilli leit að fólki sem talið er hafa tekið þátt í að myrða minnst átta manns. 140 hafa verið handteknir en þau eru sögð hafa tekið þátt í morðunum vegna gruns um að þau væru vampírur.

Þar af myrti múgurinn tvo menn í gær. Kveikt var í öðrum þeirra og hinn var grýttur.

Lögreglan sagði BBC að tveir til viðbótar hefðu verið handteknir fyrir að hóta því að sjúga blóð úr fólki. Lögreglan hefur ekki fundið neinar vísbendingar um að blóð hafi raunverulega verið sogið úr einhverjum.



Morðin hófust þann 16. september þegar þrír voru myrtir. Starfsfólk Sameinuðu þjóðanna var flutt frá tveimur svæðum í Malaví vegna morðanna.

Sjá einnig: Starfsmenn Sameinuðu þjóðanna flúðu vegna vampíruótta



Samfélagsleiðtogar í Malaví telja að orðrómar um vampírur hafi borist til landsins frá Mósambík þar sem ótti við vampírur hafa leitt til ofbeldis í vikunni. Hópar fólks hafa til dæmis ráðist að lögregluþjónum og sakað þá um að halda hlífðarskyldi yfir vampírum.

Samkvæmt BBC trúa þorpsbúar í norðurhluta Mósambík því að fólk stundi það að sjúga blóð sem hluta af athöfn til að verða ríkt. Það trúir einnig því að lögreglan nái blóðsugunum ekki þar sem þær beita göldrum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×