Innlent

Njáll Trausti: „Gríðarlega erfitt að mynda ríkisstjórn“

Sveinn Arnarsson skrifar
Njáll Trausti Friðbertsson
Njáll Trausti Friðbertsson
Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, segir fyrstu tölurnar gefa til kynna að nóttin verði löng og mikið geti breyst. Hann telur þetta geta verið með mest spennandi kosninganóttum síðustu ára

„Þetta verður gríðarlega spennandi í nótt í kjördæminu. Við erum að sjá að það er stutt á milli flokka og spennandi að sjá hvernig þetta verður þegar atkvæðin að austan koma. Líklega verður þetta barátta alveg fram á nótt og síðustu tölur munu ábyggilega breyta miklu hvernig þetta fer," segir Njáll

Sjálfstæðisflokkurinn er, þegar þetta er skrifað, með tvo menn inni í NA kjördæmi en voru með þrjá í síðustu kosningum. Valgerður Gunnarsdóttir fellur því af þingi verði þetta niðurstaða kosninga. 

En hvernig metur Njáll Trausti stöðuna í íslenskum stjórnmálum út frá þessum fyrstu tölum? „Það mun verða mjög erfitt að koma saman stjórn. Ég kom nýr að þessu í fyrra og þá voru sjö flokkar á þingi og þá var þetta nokkuð erfitt. Nú eru flokkarnir líklegast átta talsins og því verður þetta gríðarlega erfitt,“ segir Njáll. 

Búið er að telja nokkuð fá atkvæði í NA kjördæmi. Hin síðustu ár hefur oft verið talað um það að atkvæði úr Eyjafirði séu talin fyrst og síðan geti tölurnar breyst mikið eftir að hafið er að telja kjörkassa frá Austurlandi þar sem Framsóknarflokkur hefur til að mynda verið gríðarsterkur

„Hins vegar eru fá atkvæði á milli manna og flokka og því verður spennandi að sjá alveg fram á morgun hvernig þetta raðast. Það er ekki hægt að spá neinu um lokin og líkast til mikið umrót á næstu klukkutímum.“






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×