Innlent

Kerfið elskar Framsóknarflokkinn

Jakob Bjarnar skrifar
Sigurður Ingi og Framsóknarflokkurinn eru ekki bara límið í íslenskum stjórnmálum, þeir eru beinlínis kíttið í kerfinu.
Sigurður Ingi og Framsóknarflokkurinn eru ekki bara límið í íslenskum stjórnmálum, þeir eru beinlínis kíttið í kerfinu.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði í nótt að Framsóknarflokkurinn væri límið í íslenskum stjórnmálum. Hann var þá að vísa til stjórnarmyndunarviðræðna, en það á einnig við um sjálft kosningakerfið. Þar kítta þeir í öll göt; Framsóknarflokkurinn er ekki bara límið í íslenskum stjórnmálum heldur einnig kíttið.

Samfylkingin hlaut talsvert fleiri atkvæði en Framsóknarflokkurinn eða sem nam 2.636. Það breytir ekki þeirri staðreynd að Framsóknarflokkurinn fær einum þingmanni meira.

Þetta skýrist af því að Framsóknarmenn eru að fá sín atkvæði á „réttum stöðum“. Þeir eru með menn á undan Samfylkingunni á landsbyggðinni, þar sem atkvæðin vega þyngra og nógu mörg til að vera kjördæmakjörnir. Framsókn er með sex þingmenn í landsbyggðakjördæmunum þremur, 2 í hverju þeirra og síðan eru þeir með einn í Kraganum og einn í Reykjavík.

Þá er Miðflokkurinn stærri en Framsóknarflokkurinn sé litið til fjölda atkvæða. Þar munar 319 atkvæðum. Og hlýtur það að teljast mikill sigur fyrir Sigmund Davíð Gunnlaugsson sem klauf sig frá Framsóknarflokknum. Þetta breytir þó ekki því að Framsóknarflokkurinn er með stærri þingflokk, eða átta á móti sjö Miðflokksins. Það er því þannig, með persónugervingu, að kerfið elskar Framsóknarflokkinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×