Umfjöllun og viðtöl: Þór Ak. - Keflavík 90-78 | Þórsarar með óvæntan og sannfærandi sigur á Keflavík

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Ingvi Rafn Ingvarsson var frábær í kvöld.
Ingvi Rafn Ingvarsson var frábær í kvöld. Vísir/Ernir
Þór Akureyri er komið á blað í Dominos-deildinni eftir öruggan tólf stiga sigur á Keflavík í Íþróttahöllinni á Akureyri í kvöld.

Liðin skiptust á að hafa forystuna framan af en í síðari hálfleik tóku Þórsarar öll völd á vellinum og hreinlega keyrðu yfir gestina úr Keflavík.

Afhverju vann Þór?

Heimamenn virtust hafa mun meiri áhuga á þessum leik en gestirnir úr Keflavík. Leikurinn var hnífjafn í fyrri hálfleik þar sem bæði lið leituðu mikið inn í teiginn. Sóknarleikur Þórsara fór í gegnum Marques Oliver á meðan ekkert gerðist hjá Keflavík nema Cameron Forte kæmi að því. Í síðari hálfleik slokknaði algjörlega á þeim síðarnefnda á meðan fleiri leikmenn Þórs fóru að létta undir með Oliver og þá stungu Þórsarar einfaldlega af. Þeir voru staðráðnir í að tapa ekki niður forystunni líkt og þeir gerðu í fyrstu umferð gegn Haukum og unnu að lokum öruggan og sanngjarnan sigur.

Hverjir stóðu upp úr?

Ingvi Rafn Ingvarsson endar leikinn sem stigahæsti leikmaður sigurliðsins. Það mæðir mikið á honum í sóknarleiknum og þegar hann kom sér betur inn í leikinn var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi lenda. Frábær leikur hjá Ingva. Marques Oliver er lykilmaður Þórs á báðum endum vallarins og hann skilaði sínu. Þá verður líka að minnast á heimamennina Júlíus Orra Ágústsson og Sindra Davíðsson. Hinn 16 ára gamli Júlíus kom með afar mikilvægt framlag af bekknum og sýndi laglegustu tilþrif kvöldsins. Gífurlega hæfileikaríkur. Stemmningsmaðurinn Sindri sýndi svo sjaldséð tilþrif í sóknarleiknum auk þess að skila sínu varnarlega.

Cameron Forte skoraði 24 stig í fyrri hálfleik og réðu Þórsarar lítið sem ekkert við hann þá. Hann setur hins vegar aðeins 6 stig í þeim síðari og þar af komu fjögur af vítalínunni á síðustu mínútu leiksins. Reynsluboltinn Guðmundur Jónsson reyndi hvað hann gat en aðrir leikmenn voru illa stilltir.

Hvað gekk illa?



Sóknarleikur Keflvíkinga var hreinlega vondur á löngum stundum í leiknum. Oft á tíðum björguðu þeir sér með því að finna Forte í teignum en annað gekk illa. Þeir urðu vissulega fyrir áfalli snemma leiks þegar Ragnar Örn Bragason missteig sig illa. Hann hafði byrjað leikinn vel og Keflvíkingum tókst ekki að höndla fjarveru hans.

Tölfræði sem vekur athygli

Tröllatvennur Ameríkananna. Cameron Forte og Marques Oliver eru leikmenn sem eiga eftir að setja svip sinn á Dominos-deildina í vetur. Afar öflugir inn í teignum og það var mjög gaman að fylgjast með baráttu þeirra í kvöld; hún var oft frekar harkaleg. Forte skilar niður 30 stigum og tekur 16 fráköst. Oliver hinumegin með 21 stig og 15 fráköst.

Hvað er næst?

Þórsarar eru á leiðinni í nágrannaslag þar sem þeir skella sér á Sauðárkrók í næstu umferð. Keflvíkingar halda áfram að skoða landið því þeir eiga útileik gegn Hetti í næstu umferð.



Þór Ak.-Keflavík 90-78 (23-28, 23-17, 23-13, 21-20)

Þór Ak.: Ingvi Rafn Ingvarsson 26, Marques Oliver 21/15 fráköst, Júlíus Orri Ágústsson 13, Sindri Davíðsson 12, Pálmi Geir Jónsson 8/8 fráköst, Bjarni Rúnar Lárusson 6, Hreiðar Bjarki Vilhjálmsson 4.

Keflavík: Cameron Forte 30/16 fráköst, Magnús Már Traustason 15/4 fráköst, Guðmundur Jónsson 13, Ágúst Orrason 6/5 fráköst, Ragnar Örn Bragason 6, Hilmar Pétursson 6/6 stoðsendingar, Daði Lár Jónsson 2/6 fráköst.





Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Þórs.Vísir/Ernir


Hjalti Þór: Okkur er alveg sama hvað öðrum finnst


Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Þórs, var að vonum sigurreifur eftir sinn fyrsta sigur sem þjálfari Þórs.

„Frábær sigur. Við vorum ósáttir með sjálfa okkur eftir síðasta leik. Okkur fannst við eiga að vinna þann leik líka. Við gíruðum okkur vel fyrir þennan leik og ætluðum okkur sigur og ekkert annað.“

Líkt og í kvöld voru Þórsarar með forystu á löngum köflum í fyrstu umferð gegn Haukum en töpuðu svo leiknum í fjórða leikhluta. Hjalti var duglegur að minna strákana á að klára leikinn út í gegn.

„Ég var alltaf að kalla á strákana að halda fókus og halda áfram. Það hefur vonandi skilað sér því strákarnir gerðu vel og héldu áfram.“

Þórsurum er ekki spáð góðu gengi í Dominos-deildinni en Hjalti hefur ekki miklar áhyggjur af því hvað aðrir hafa segja um liðið.

„Ég hef sagt í mörgum viðtölum að við erum ungir og við eigum bara eftir að verða betri í vetur. Þessi sigur kemur mér ekkert á óvart þó hann komi eflaust mörgum öðrum á óvart. Við höfum trú á okkur sjálfum og okkur er alveg sama hvað öðrum finnst um okkur.“

Hinn 16 ára gamli Júlíus Orri Ágústsson átti frábæra innkomu af bekk Þórsara og sýndi lipur tilþrif.

„Hann var bara X-faktorinn í kvöld. Hann braut þetta upp þegar hann kom inná og skilaði snöggum sex stigum. Hann hefur rosalega hæfileika en hann verður samt að halda sér á jörðinni og halda áfram að bæta sig,“ segir Hjalti.

Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Keflavíkur.Vísir/Ernir


Friðrik Ingi: Þórsarar einfaldlega miklu betri


Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Keflavíkur, var svekktur með hugarfarið hjá sínum mönnum.

„Fyrst og fremst er ég svekktur með spilamennsku liðsins og hugarfarið hjá okkur. Það var enginn broddur í þessu og mér fannst Þórsararnir viljugri á öllum sviðum og sýndu það frá upphafi til enda. Við áttum smá kafla þar sem við gerðum okkur líklega en þá bara vöknuðu Þórsararnir aftur. Þeir stýrðu leiknum frá A-Ö og voru einfaldlega miklu betri.“



Eins og áður segir er Þórsurum spáð afleitu gengi í vetur. Heldur Friðrik að um vanmat hafi verið að ræða hjá leikmönnum Keflavíkur?

„Ég skal ekki segja. Við fórum vel yfir hlutina á fundi með leikmönnum í gær og það voru skýr skilaboð frá okkur þjálfurunum að við værum að fara í hörkuleik. Ég sá Þór spila við Hauka og þar voru þeir betri stærstan hluta leiksins. Ég vona að það hafi ekki verið vanmat en maður veit svosem aldrei. Ég var allavega ekki ánægður með hugarfarið hjá okkur.“

Keflvíkingar urðu fyrir áfalli í fyrsta leikhluta þegar Ragnar Örn Bragason þurfti að yfirgefa völlinn vegna meiðsla.

„Meiðslalistinn er langur svo vonandi er það ekki alvarlegt. Þröstur er á leið í aðgerð og við erum án Reggie og Sigurþórs. Við höfum verið í basli og það er ekki á það bætandi ef Ragnar bætist á þann lista en við tökum því bara eins og það er.“

„Það er áskorun fyrir framan okkur. Við erum með öðruvísi lið en við vorum með í fyrra. Við erum með unga leikstjórnendur. Við spilum hér með 17 ára leikmann sem er að taka sín fyrstu skref í efstu deild. Hann er að fylla skarð sem Hörður Axel (Vilhjálmsson) skilur eftir sig. Allt tekur þetta tíma en við verðum bara að bíta í skjaldarrendur og mæta þessari áskorun,“ segir Friðrik Ingi að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira