Körfubolti

Domino's Körfuboltakvöld: Matareitrun, já ertu ekki orðinn fínn bara?

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Leikmenn Þórs frá Þorlákshöfn hafa ekki byrjað tímabilið í Domino's deild karla eins og þeir hefðu óskað, en margir leikmanna liðsins þjáðust af matareitrun í upphafi móts.

Þór tapaði á fimmtudag gegn Njarðvík og hafa nú tapað báðum fyrstu leikjum sínum, eftir að hafa orðið Meistarar meistaranna í opnunarleik tímabilsins.

Fyrsta deildarleiknum gegn Grindavík var frestað vegna veikindanna, en hann átti að fara fram 6. október síðast liðinn. Í staðinn var leikurinn leikinn tveimur dögum síðar, sunnudaginn 8. október.

Sérfræðingarnir í Domino's Körfuboltakvöldi ræddu frestunina í gær og hnakkrifust um hana eins og þeim einum er lagið.

„Ég ætla að taka upp hanskann fyrir mótanefnd. Ég skil að þeir hafi sett þetta strax á,“ sagði þáttastjórnandinn Kjartan Atli Kjartansson.

Kristinn Geir Friðriksson var sammála honum, en Jón Halldór Eðvaldsson sagði það algjöra þvælu.

„Þetta er bara eins og í Forrest Gump myndinni, shit happens,“ sagði Kristinn Geir.

Mótanefnd KKÍ verður samkvæmt reglum að setja leikinn á næstu mögulegu dagsetningu, og kom Kristinn Geir með röksemdafærslu sem erfitt er að eiga við.

„Sönnun þess að þetta var fyrsta mögulega dagsetningin er sú að leikurinn var settur á þarna.“

Jón Halldór keypti þó ekki þessa staðhæfingu Kristins. „Það eru fræðimenn sem skrifa upp á þessi bréf [læknisvottorð sem að minnsta kosti 6 leikmenn Þórs skiluðu inn] sem eru lögð á borðið fyrir þessa mótanefnd. Mótanefndin, ætla þeir svo bara að ákveða, matareitrun, já ertu ekki orðinn fínn bara?“

Þessar stórskemmtilegu rökræður má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×