Innlent

Margrét Gauja stígur fram: Tók svefntöflur eftir kynferðislega áreitni innan lögreglunnar

Jakob Bjarnar skrifar
Margrét Gauja var reglulega föst í lögreglubíl á vakt með manni sem áreitti hana látlaust.
Margrét Gauja var reglulega föst í lögreglubíl á vakt með manni sem áreitti hana látlaust.
Margrét Gauja Magnúsdóttir, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, hefur stigið fram og greint frá kynferðislegri áreitni sem hún mátti sæta þegar hún starfaði í lögreglunni fyrir 17 árum.

Mikil vakning á sér nú stað á Íslandi en hver konan á fætur annarri hefur stigið fram á undanförnum dögum og greint frá kynferðislegu áreiti sem þær hafa mátt sæta. Þessa vakningu má rekja fregna af konum sem hafa stigið fram vestra í stórum stíl og greint frá kynferðislegri áreitni og nauðgunum Harvey Weintstein kvikmyndaframleiðanda.

Margrét Gauja lýsir því á Facebooksíðu sinni að þegar hún var 23 og starfaði innan lögreglunnar hafi samstarfsmaður hennar, maður sem hún hafi gengið vaktir með og oft verið með í lögreglubíl, notað aðstöðu sína til að áreita hana kynferðislega. Þetta leiddi svo til þess að Margrét Gauja greip til þess að láta í sig of stóran skammt svefnlyfja.

Reglulega föst með manninum í lögreglubíl

Um var að ræða giftan mann en Margrét Gauja stóð frammi fyrir sambandsslitum sjálf á þessum tíma.

„Einn samstarfmaður minn sá sér leik á borði og byrjaði áreitið. Ég þurfti að sitja með honum í bíl aðra hverja vakt í 12 klst. Hann byrjaði rólega, tala um sínar fantasíur og að ílla gengi í sambandi hans og konunnar, hún væri svo kynköld. Ég reyndi að forðast umræðuna en það tókst aldrei. Næst var hann byrjaður að suða i mér að fá að sleikja á mér píkuna, hann hefði svo mikla ánægju afþví. Án allra skuldbindinga, bara að fullnægja mér, ekkert annað.

Í hvert skipti sem ég settist uppí lögreglubílinn með honum byrjaði það, vorum varla komin útá Reykjanesbraut. Ég sat bara og þagði.

Ríghélt í Nokia 5110 símann minn ef hann myndi láta vaða.“

Vildi bara sofna og dofna

Fram kemur í pistli Margrétar Gauju að það hafi tekið mjög á að segja frá þessu atviki opinberlega. „En ég ætla að láta vaða núna, sit hér skjálfandi við tölvuna,“ skrifar Margrét Gauja.

Álagið sem fylgdi þessu stöðuga áreiti samstarfsmanns hennar í lögreglunni var svo mikið að hún fór í lyfjaskáp móður sinnar.

„Einn daginn gafst ég upp, með allt í rugli heima hjá mér, samskipti við Davíð í hassi og svo flökurt við að horfa á lögreglubúninginn minn braust ég inní lyfjaskáp mömmu og át öll amerísku verkjalyfin hennar. Ekki til að reyna sjálfsvíg, ég vildi bara sofna og dofna.“

Áreitni í skálkaskjóli valds

Margrét Gauja segir svo frá að henni hafi verið reynst örðugt að greina yfirmönnum frá því hvað var í gangi, hún hafi verið neðst í goggunarröðinni innan lögreglunnar. Og þetta hefur gengið erfiðlega að vinna úr þessari skelfilegu reynslu:

„Núna 17 árum síðan er ég enn að vinna úr þessari reynslu.

Ég sat á þingi þegar skýrslan um kynferðislega áreitni innan lögreglunnar kom út. Ég kom ekki upp orði, satt bara flökurt og klökk í þingsalnum. Hljóp inná klósett, kastaði upp og grét.

Þetta er því miður ekki eina svona reynsla mín. Ég hef oft lent í grófu áreiti en svona áreiti er það versta. Að vera fastur í aðstæðum þar sem hinn aðilinn nýtir sér völd sín og stöðu til að níðast á þér.“

Margrét Gauja vonast til þess að frásögn hennar muni veita fleirum styrk til að segja sína sögu.

„Takk þið öll sem hafa stígið fram undanfarin ár og gefið mér þetta hugrekki. Án ykkar væri ég bara enn að öskra í koddann og kenna mér um.“ Og með fylgja myllumerkin: #höfumhátt #notalone #þöggun

Pistillinn, sem Margrét Gauja birti nú í morgun, hefur vakið mikla athygli og hrannast stuðningsyfirlýsingar upp á athugasemdakerfinu.


Tengdar fréttir

Telma segir frá áreitni þriggja manna

"Þjóð veit þá þrír vita,“ hvíslaði virtur kennari og vinur þegar hann ítrekað leitaði á mig 17 eða 18 ára gamla og vildi eiga "ævintýri“ sem þoldi ekki dagsljósið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×