Umfjöllun og viðtöl: Höttur - Valur 93-99 | Valur vann nýliðaslaginn

Gunnar Gunnarsson skrifar
Höttur er ekki enn búinn að vinna leik en þetta var fyrsti sigur Vals í vetur.
Höttur er ekki enn búinn að vinna leik en þetta var fyrsti sigur Vals í vetur. vísir/eyþór
Valur náði í sin fyrstu stig í Dominos-deild karla í körfuknattleik þegar liðið vann Hött á Egilsstöðum, 93-99, eftir framlengdan leik. Höttur fékk færi á vítalínunni til að klára leikinn eftir að venjulegur leiktími rann út.

 

Liðin fylgdust að upp úr fyrstu deildinni í fyrra og höfðu fyrir leikinn tapað fyrstu tveimur leikjunum. Valsmenn voru yfirleitt skrefinu á undan í leiknum en aldrei meira en fimm stigum sem Hattarmenn unnu gjarnan fljótt upp aftur.

Valsmenn spiluðu pressuvörn allt frá öðrum leikhluta og lögðu sérstaka áherslu á að dekka Moss. Það þreytti hann, Moss fékk krampa og augljóst var að hann væri á síðustu dropunum.

Höttur átti innkast eftir leikhlé í stöðunni 89-90 þegar sjö sekúndur voru eftir. Örþreyttur Aaron Moss fékk boltann og keyrði að körfunni en skot hans geigaði. Boltinn hrökk af hringnum hinum megin og þar barðist sægur af leikmönnum um að ná frákastinu.

Hattarmenn blökuðu boltanum tvisvar eða þrisvar að körfunni en ofan í fór boltinn ekki. Dómararnir tóku hins vegar af skarið og dæmdu villu um leið og leikklukkan rann út.

Valsmenn fórnuðu höndum á meðan Ragnar Gerald Albertsson fór á vítalínuna. Fyrra skot hans hrökk af hringnum en það seinna fór ofan í. Það þýddi að leikinn varð að framlengja.

Höttur skoraði fyrstu körfuna í framlengingunni og leiddi um nokkra stund. Það voru hins vegar Urald King sem kom Val í 92-95 þegar hann skoraði eftir gegnumbrot og nýtti vítið að auki. Þegar mínúta var eftir setti Austin Bracey niður þriggja stiga körfu, ekki sína fyrstu í leiknum og þar með var Valur kominn með vald á leiknum.

 

Af hverju vann Valur?

Í framlengingunni virtist það þolið sem skipti máli. Aaron Moss var fenginn til Hattar á ný eftir fyrsta leikinn og er ekki kominn í fullt form. Hann var dauðþreyttur í lokin. Val tókst betur að hvíla leikmenn.

 

Hverjir stóðu upp úr?

Austin Bracey og Urald King drógu Valsvagninn. Bracey mátti aldrei fá óþvingað skot, þá virtist það svífa ofan í. Hann skoraði 30 stig í leiknum, þar á meðal mikilvæga þriggja stiga körfu í lok framlengingar.

 

Hvað gekk illa?

Vítaskot Hattar. Liðið var með 56% nýtingu af línunni og fyrra vítið í stöðunni 89-90 gæti gert einhvern andvaka.

 

Hvað gerist næst?

Valur var ekki fjærri sigri í fyrstu tveimur leikjunum. Nú er komið yfir einn hjalla sem ætti að efla sjálfstraust liðsins. Höttur er án sigurs en sóknarleikurinn er á réttri leið miðað við fyrstu tvo leikina.

Ágúst: Vorum ferskari í lokin

 

Ágúst Björgvinsson, þjálfari Vals, sagði að þolið hefði reynst Valsmönnum dýrmætt í kvöld. Valsmenn spiluðu pressuvörn frá öðrum leikhluta.

 

„Planið var að pressa allan leikinn og það gekk ágætlega þannig við náðum að þreyta þá. Við fundum það í lokni að við vorum ferskari,“ sagði Ágúst.

 

Það munaði ekki miklu, Höttur fékk tvö vítaskot um leið og leikklukkan gall í stöðunni 89-90. Ragnar Gerald Albertsson nýtti aðeins seinna vítið og því var framlengt.

„Ég var ekki ánægður með þennan dóm því ég sá enga villu. Það var bara að krossa fingur og vona að hann myndi ekki hitta úr báðum. Það gerði hann ekki og við mættum brattir í framlenginguna því þeir voru þreyttir.“

 

Valur þraukaði, vann að lokum 93-99 og náði þar með í fyrsta sigurinn í vetur.

„Ég er ægilega þreyttur, þessi leikur tók töluvert á taugarnar. Við þurftum að hafa svakalega mikið fyrir þessum sigri. Það er oft erfitt að ná fyrsta sigurinn enda langt síðan hann var.“

 

Urald King og Austin Bracey fóru fyrir Valsliðinu, King skoraði 29 stig og Bracey 30. „Þeir voru of afgerandi miðað við hvernig við höfum verið að spila upp á síðkastið. Það vantaði meira framlag frá öðrum, sérstaklega í upphafi leiks. Eftir sem á leið skiluðu fleiri og fleiri framlagi. Þeir áttu báðir glimrandi leik.“

Bracey: Þetta eru stór stig

 

Austin Bracey átti frábæran leik fyrir Val í kvöld og skoraði 30 stig. Hann lék með Hetti árin 2012-2013.

„Það er gaman að koma austur í Egilsstaði, ég þekki marga hér til dæmis marga stráka í liðinu og þetta er eins og mitt annað heimili,“ sagði Bracey léttur.

 

Hann var ánægður með að ná fyrsta sigrinum.

„Þetta eru stór stig. Við vitum að við eigum heima í þessari deild. Þetta var jafn leikur og tæpur dómur í lokin en við börðumst vel allan leikinn.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira