Skoðun

Græn framtíð

Björt Ólafsdóttir skrifar

Náttúra Íslands er undirstaða og vörumerki okkar helstu atvinnugreina. Ferðaþjónustan, landbúnaðurinn, orkuiðnaðurinn og sjávarútvegurinn nýta sér íslenska náttúru til að markaðssetja vörur sínar. Þannig nefna yfir 80% ferðamanna náttúru landsins sem helstu ástæðu heimsóknar sinnar svo ljóst er að aðdráttarafl hennar er undirstaða þeirrar hagsældar sem ríkt hefur undanfarin ár.



Náttúran hefur eigið gildi og vernd hennar óháð tengslum við manninn og umhverfi hans er mjög mikilvæg. En í ljósi ofangreinds er náttúruvernd líka mikilvægasta efnahagsmálið. Á sama hátt og sjávarauðlindin okkar er nýtt á sjálfbæran hátt og ofveiði fyrirbyggð þá eru íslenskir fossar, víðerni, jarðhitasvæði og önnur séreinkenni íslensks landslags líka viðkvæm auðlind sem þolir illa mikið álag. Því er nauðsynlegt að við umgöngumst þessa auðlind af virðingu.



Þess vegna er líka mikilvægt að við mótum okkur framtíðarsýn um þessi mál samfélaginu til góða. Náttúruvernd í orði en ekki á borði, sem eingöngu er hampað á hátíðisdögum er ekki nægjanleg. Þau sem tala þannig átta sig ekki á tækifærunum sem felast í að nýta umhverfisvernd samfélaginu til góða.



Hitaveituvæðing Íslands er oft nefnd sem dæmi um framsækni landsins í umhverfismálum. Hún er upplagt dæmi um góða framtíðarsýn. Nú stöndum við aftur á þeim tímamótum að þurfa að móta okkur framtíðarsýn sem getur nýst okkur jafn farsællega.



Þar er sýn Bjartrar framtíðar mjög skýr. Við segjum nei við olíuleit og stöndum með þeirri ákvörðun – ekki bara þegar það hentar. Við stöndum gegn mengandi stóriðju og sóun á orku og teljum að það eigi að fara betur með þá orku sem þegar er framleidd og nýta hana beint í græn og sjálfbær verkefni. Við fögnum fiskeldi en eingöngu í lokuðum kvíum sem ógna ekki villta laxinum okkar né vistkerfum íslenskra fjarða. Við viljum þjóðgarð á miðhálendinu til verndar því einstaka svæði, vörumerki hreinleika Íslands. Ef við látum verkin tala í umhverfismálum á Íslandi eins og Björt framtíð hefur gert, þá mun náttúra Íslands ýta undir enn frekari hagsæld.

 



Höfundur er umhverfis- og auðlindaráðherra.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×