Umfjöllun: Keflavík - Valur 117-86 | Keflvíkingar settu upp skotsýningu

Magnús Einþór Áskelsson skrifar
Guðmundur Jónsson skoraði 10 stig og gaf fimm stoðsendingar í liði Keflavíkur.
Guðmundur Jónsson skoraði 10 stig og gaf fimm stoðsendingar í liði Keflavíkur. vísir/anton
Keflavík fengu Val í heimsókn í kvöld og unnu öruggan sigur, 117-86.

Leikurinn fór fjörlega af stað, bæði lið að skora mikið og leikurinn hraður. Reggie Dupree fór meiddur af velli strax eftir tvær mínutur og kom ekki meira við sögu í leiknum. Valsmenn leiddu með þremur stigum eftir fyrsta leikhluta.

Friðrik Ingi var alls ekki sáttur með sína leikmenn lét sína leikmenn heyra það fyrir annan leikhluta. Keflvíkingar tóku öll völd á vellinum keyrðu yfir Valsmenn með því að vinna leikhlutann 41-13. Staðan í hálfleik því 69-44 og má segja að Keflvíkingar hafi klárað þennan leik í öðrum leikhluta.

Valsmenn byrjuðu seinni hálfleikinn á því að skora 7 fyrstu stigin og kveikti á Völsurum í stúkunni. Keflavík voru fljótir að þagga það niður með laglegum körfum og sigldu öruggum sigri heim að lokum, 117-86.

Af hverju vann Keflavík?

Keflavík voru sterkari á öllum sviðum körfuboltans í kvöld, keyrðu upp hraðann og áttu Valsmenn fá svör við leik heimamanna. Hittni Keflvíkinga var mjög góð í leiknum enda var varnarleikur Valsmanna arfaslakur og heimamenn fengu mjög mörg opin skot. 

Bestu menn vallarins:

Erfitt er að taka einn leikmann úr Keflavíkurliðinu enda sex leikmenn sem skoruðu yfir 10 stig eða meira. Hilmar Pétursson kom sterkur inn í fyrri hálfleik og skoraði þar 13 stig á sex mínútum, Cameron Forte nýjasti leikmaður Keflavíkur átti lipra spretti, setti 25 stig og gældi við þrennuna. Daði Lár Jónsson leit mjög vel út og setti 17 stig.

Hjá Valsmönnum var  Austin Magnus Bracey með 21 stig og og Urald King með 18 stig og 20 fráköst. 

Tölfræðin sem vakti athygli:

Keflavík hitti 18 af 35 þriggja stiga skotum sínum í leiknum sem er svo sem ekki nýtt á nálinni þegar þeir eiga í hlut. Athyglisverðast var að Keflavík fóru aðeins fjórum sinnum á vítalínuna sem sýnir helst hversu hræðilegur varnarleikur Valsmanna var í þessum leik.

Hvað gekk illa?

Varnarleikur Vals var ekki til staðar í þessum leik og þurfa virkilega að spýta í lófana ef þeir ætla sér að gera eitthvað í þessari deild. Reggie Dupree meiddist á læri og vont fyrir Keflvíkinga að missa hann í meiðsli því næg eru þau fyrir.

Keflavík-Valur 117-86 (28-31, 41-13, 24-18, 24-24)

Keflavík: Cameron Forte 25/10 fráköst/7 stoðsendingar, Magnús Már Traustason 18, Daði Lár Jónsson 17/5 fráköst/7 stoðsendingar, Hilmar Pétursson 16/5 fráköst, Ragnar Örn Bragason 12, Guðmundur Jónsson 10/4 fráköst/5 stoðsendingar, Ágúst Orrason 7, Kristján Örn Rúnarsson 5, Davíð Páll Hermannsson 4, Arnór Sveinsson 3, Reggie Dupree 0, Andri Daníelsson 0.

Valur: Austin Magnus Bracey 21, Urald King 18/20 fráköst/6 stoðsendingar, Sigurður Dagur Sturluson 14/5 fráköst, Illugi Steingrímsson 11, Oddur Birnir Pétursson 8/5 fráköst, Birgir Björn Pétursson 6/6 fráköst, Benedikt Blöndal 3/6 stoðsendingar, Elías Kristjánsson 3, Þorgeir Kristinn Blöndal 2, Sigurður Páll Stefánsson 0, Bergur Ástráðsson 0, Þorbergur Ólafsson 0.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira