Innlent

Sjálfstæðisflokkurinn tapaði þriðjungi þingmanna sinna

Kjartan Kjartansson skrifar
Verulegar breytingar yrðu á þingstyrk flokkanna ef niðurstöður kosninganna í lok mánaðar yrðu á þennan veg.
Verulegar breytingar yrðu á þingstyrk flokkanna ef niðurstöður kosninganna í lok mánaðar yrðu á þennan veg. Vísir/GVA
Vinstri græn mælast enn langstærsti stjórnmálaflokkurinn í nýrri könnun Félagsvísindastofnunar sem birtist í Morgunblaðinu í morgun. Sjálfstæðismenn myndu tapa þriðjungi þingsæta sinna og Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar mælist stærri en Framsóknarflokkurinn sem hann klauf sig út úr.

Fylgi Samfylkingarinnar tekur stökk upp á við og mælist hún nú þriðji stærsti flokkurinn með 11% fylgi. Það myndi daga fyrir sjö þingmönnum.

Fylgi Vinstri grænna mælist 28,2% í könnuninni sem var gerð dagana 2.-5. október. Færu þingkosningarnar 28. október á þann veg fengi flokkurinn tuttugu þingmenn, tvöfalt fleiri en fyrir ári.

Sjálfstæðismenn fengju 21% atkvæða ef marka má könnunina og fengju fjórtán þingsæti. Þeir hafa nú 21 sæti á þingi. Könnunin var gerð áður en greint var frá því að Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, hefði selt eignir sínar í Sjóði 9 hjá Glitni um það leyti sem ríkið tók bankann yfir árið 2008.

Á eftir Samfylkingunni mælast Flokkur fólksins, Miðflokkurinn og Píratar svo gott sem jafnstórir með ríflega 9% fylgi. Stuðningur við Framsóknarflokkinn mælist aðeins 5,5% í könnuninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×