Enski boltinn

Philippe Coutinho: Ég er rólegur því þetta mál er búið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Philippe Coutinho og knattspyrnustjórinn Jürgen Klopp.
Philippe Coutinho og knattspyrnustjórinn Jürgen Klopp. Vísir/Getty
Philippe Coutinho er með fulla einbeitingu á því að spila fyrir Liverpool þrátt fyrir að Barcelona hafi sýnt honum mikinn áhuga í haust.

Liverpool hafnaði þremur tilboðum Barcelona í Philippe Coutinho sem spilaði ekkert með Liverpool þegar allt þetta gekk á.

Liverpool vildi ekki selja hann þrátt fyrir að spænska stórliðið hafi boðið í hann allt að 118 milljón pundum.

Coutinho hefur verið að koma meira og meira inn í Liverpool-liðið og í síðustu leikjum hefur hann sýnt að hann er kominn í leikform á ný.

„Ég er rólegur því þetta mál er búið,“ sagði Philippe Coutinho sem hefur byrjað síðustu þrjá leiki Liverpool og skorað í síðustu tveimur. Sky Sports segir frá.

„Ég er hér til að gera allt sem ég get fyrir félagið,“ sagði Coutinho sem skoraði jöfnunarmark Liverpool á móti Spartak Moskvu í Meistaradeildinni í vikunni.

„Þetta voru ekki úrslitin sem við vonuðumst eftir en við verðum að halda vinnunni áfram og það eru fjórir leikir eftir í riðlinum,“ sagði Coutinho.

Hann hefur sett stefnuna á að komast í HM-hóp Brasilíumanna. „Ég vona að ég verði valinn. Ég vil komast betur inn í hlutina í hvert skipti sem ég er valinn og við náum vonandi að bæta okkur sem landslið til að ná árangri næsta sumar,“ sagði Coutinho.

Næsti leikur Liverpool er hinsvegar á móti Newcastle á útivelli á sunnudaginn.

Philippe Coutinho fagnar marki sínu í Meistaradeildinni í vikunni.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×