Sport

Nadal vann sextánda stórmótstitilinn | Nálgast Federer

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rafael Nadal.
Rafael Nadal. Vísir/Getty
Rafael Nadal bar sigur úr býtum á Opna bandaríska meistaramótinu í tennis í gær eftir öruggan sigur á Kevin Anderson í úrslitaviðureigninni í gær, 6-3, 6-3 og 6-4.

Nadal vann tvö stórmót á árinu í fyrsta sinn síðan 2013 en Spánverjinn öflugi bar sigur úr býtum á Opna franska í júní.

„Þetta hefur verið ótrúlegt ár. Eftir nokkur ár af vandræðagangi - meiðslum og að spila stundum illa - hefur þetta verið afar tilfinningaríkt hjá mér á þessu ári,“ sagði Nadal eftir sigurinn í gær.

Roger Federer er sigursælasti tenniskappi allra tíma með nítján stórmótstitla en hann vann tvo í ár - rétt eins og Nadal. Svisslendingurinn vann á Opna ástralska og Wimbledon-mótinu.

Tíu af sextán titlum Nadal hafa komið á Opna franska en þetta var þriðji sigur hans á Opna bandaríska. Nadal er 31 árs og er í efsta sæti heimslistans.

Næstur á eftir þeim Federer og Nadal á lista yfir flesta sigra á stórmótum er Bandaríkjamaðurinn Pete Sampras með fjórtán titla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×