Innlent

Píratar vilja samþykkja nýja stjórnarskrá áður en þing verður rofið

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Frá þingflokksfundi Pírata í morgun.
Frá þingflokksfundi Pírata í morgun. Vísir/Anton
Þingflokkur Pírata segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi með framgöngu sinni sýnt fram á að hann sé óstjórntækur. Þau segja að ganga þurfi til kosninga eins fljótt og auðið er en áður en það gerist þurfi að samþykkja nýja stjórnarskrá.

„Opinberun á valdníðslu gagnvart þolendum kynferðisofbeldis hefur haft djúpstæð áhrif á okkur öll. Framganga Bergs Þórs Ingólfssonar sem og annarra aðstandenda og þolenda kynferðisbrota er birtingarmynd þess hvernig einstaklingar geta haft áhrif og breytt samfélaginu. Við dáumst að hugrekki og heilindum þeirra sem stigið hafa fram,“ segir í tilkynningu frá flokknum.

Stjórn Bjartrar framtíðar samþykkti með afgerandi meirihluta að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu í gærkvöldi vegna trúnaðarbrests. Í framhaldinu lýsti Viðreisn því yfir að loknum fundi sínum að réttast væri að boða til kosninga í ljósi stöðunnar sem væri komin upp.

Almenningur vilji nýja stjórnarskrá

„Þetta sýnir að almenningur ræður og almenningur, fyrir fimm árum síðan, valdi nýja stjórnarskrá.“

Þau segja að svara þurfi ákalli almennings og forseta og samþykkja nýja stjórnarskrá.

„Sjálfstæðisflokkurinn hefur með framgöngu sinni sýnt fram á að hann er óstjórntækur. Þingflokkur Pírata skorar því á alla aðra flokka á Alþingi að verða við þessu ákalli, sem og ákalli forseta Íslands við þingsetningu, og samþykkja nýja stjórnarskrá áður en þing verður rofið og gengið til kosninga sem þarf að verða eins fljótt og auðið er.“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir varaþingflokksformaður flokksins sagði í samtali við Vísi í morgun að flokkurinn vilji fyrst athuga möguleikann á minnihlutastjórn eða fimm flokka stjórn áður en þing verði rofið og gengið til kosninga.


Tengdar fréttir

Píratar vilja ekki rjúka í kosningar

Píratar eru ekki tilbúnir að taka ákvörðun tafarlaust um hvort ganga eigi til kosninga eða hvort láta eigi reyna á minnihlutastjórn eða fimm flokka stjórn




Fleiri fréttir

Sjá meira


×