Innlent

„Almenningur á að eiga lokaorðið“

Birgir Olgeirsson skrifar
Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra.
Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra. vísir/ernir
„Sú grafalvarlega staða sem er uppi í íslenskum stjórnmálum, kallar á skjót og markviss viðbrögð,“ skrifar Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, á Facebook-síðu sína vegna stjórnarslitanna.

Hann segir nauðsynlegt að skýra þá pólitísku óvissu sem upp er komin og þann trúnaðarbrest sem er upp kominn milli stjórnmálamanna og almennings. Hann segir þingflokk Viðreisnar afdráttarlausan í afstöðu sinni til málsins. Boða verði til kosninga eins fljótt og auðið er.

„Almenningur á að eiga lokaorðið í þessum efnum,“ skrifar Þorsteinn.

Hann segir að upplýsa verði að fullu og án tafar þá atburðarás sem leiddi til þess að tveimur dæmdum kynferðisglæpamönnum, sem gerst höfðu sekir um svívirðilega glæpi, var veitt uppreist æru síðastliðið haust.

„Þær upplýsingar sem fram hafa komið gefa tilefni til að draga í efa þær skýringar sem gefnar hafa verið á málsatvikum hingað til. Það verður einfaldlega að ríkja fullt traust til málsmeðferðar svo alvarlegra mála. Sú er því miður ekki raunin nú. Almenningur á rétt á því að upplýst verði um málsmeðferð, þar með talið alla upplýsingagjöf stjórnvalda. Samfélag sem hefur skilning á eðli og afleiðingum kynferðislegs ofbeldis verður að sýna þolendum þá virðingu.“


Tengdar fréttir

Viðreisn vill kosningar sem fyrst

Þingflokkur Viðreisnar fundaði í Austurstræti frá klukkan rúmlega 1 eftir miðnætti til um klukkan 4.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×