Skáktyrkinn Stefán Pálsson skrifar 17. september 2017 10:00 Nýleg eftirlíking af skáktyrkjanum. Um miðbik síðustu aldar enduruppgötvuðu fræðimenn verk fjölfræðingsins Leónardós frá Vinci. Myndlist Leónardós var öllum kunn, sem og þær vísindarannsóknir sem ratað höfðu á prent. Öðru máli gegndi hins vegar um fjölda minnisbóka meistarans sem dreifst höfðu um allar trissur. Ekki bætti úr skák að minnisbækurnar voru sundurlaus samtíningur af athugunum og rissmyndum, sem ritaðar voru með spegilskrift, annaðhvort til að erfiðara væri að afrita þær eða til að gera hinum örvhenta vísindamanni unnt að skrifa hraðar. Þegar gengið var í að taka saman heildaryfirlit yfir verk Leónardós komu ný handrit í ljós og athyglitók að beinast að öðrum þáttum. Þá freistuðu tæknimenn þess að endurgera sumar uppfinningarnar. Ein þessara uppfinninga var nokkurs konar vélmenni: brynjuklæddur riddari í fullri stærð sem unnt var að stýra á þann hátt að hann gat heilsað, kinkað kolli, bugtað sig og beygt. Sögur hermdu að Leónardó hefði útbúið slíkan gervimann sem skemmtiatriði við hirð Ludovicos Sforza, hertoga af Mílanó, árið 1495. Starfsmönnum ítalsks vísindasafns tókst að smíða nothæfa útgáfu af riddara Leónardós eftir skissum hans. Leónardó er fráleitt fyrsti vísindamaðurinn sem hefur verið eignuð uppfinning af þessum toga. Sagan er full af mistrúverðugum frásögum af hreyfanlegum vélum í manns- eða dýralíki sem hinir og þessir snillingar eiga að hafa smíðað í gegnum tíðina. Þannig voru nokkrir forngrískir vísindamenn sagðir hafa skapað slíkar vélar og sama má segja um kollega þeirra í Kína og síðar úr hópi arabískra hugvitsmanna.Gervimenn um víða veröld Það var þó fyrst í Evrópu á sautjándu og átjándu öld sem áhuginn á smíði frumstæðra vélmenna hófst. Það má að miklu leyti rekja til aukinnar vélhyggju. Vísindamenn sáu samsvaranir milli fyrirbæra í náttúrunni og sífellt flóknari sigurverka klukkusmiða álfunnar. Þannig líkti hugsuðurinn áhrifamikli Erasmus frá Rotterdam beinagrind og vöðvafestingu dýra og fugla við vélbúnað. Það væri í raun stigsmunur en ekki eðlismunur á lífverum og úrverki. Haganlega smíðaðar eftirlíkingar af dýrum, sem gátu hreyft sig eða leikið tónlist, urðu vinsælir gripir í svokölluðum furðugripaherbergjum. Það voru hirslur eða heilu herbergin í höllum þjóðhöfðingja og aðalsmanna, þar sem safnað var saman fágætum náttúrugripum (sviknum jafnt sem ósviknum) en einnig hvers kyns völundarsmíð – tækjum og tólum sem vakið gátu aðdáun gesta. Söfn þessi voru stöðutákn og áttu að sýna fram á auðlegð og vísindaáhuga eigenda sinna. Það var því lítið til sparað þegar kom að því að kaupa sýningargripi og eftir miklu að slægjast fyrir snjalla uppfinningamenn. Ein frægasta smíð af þessu tagi var vélönd sem virtist éta og melta fæðu sína, það er: hún át korn sem fyrir hana var lagt en skilaði frá sér úrgangi sem minnti helst á raunverulegan andaskít. Vélöndin, sem hönnuð var árið 1739, byggði vitaskuld á blekkingum þar sem „melta úrganginum“ var komið fyrir í sérstöku hólfi inni í vélinni. Auk þess að éta og drita, gat fuglinn blakað vængjunum með tilþrifum, en um 400 lausir hlutir voru í hvorum væng hennar. Öndin vakti aðdáun hvarvetna og komu menn um langan veg til að sjá hana. Segir það sína sögu að uppfinningamaðurinn, Frakkinn Jacques de Vaucanson, lifði góðu lífi á því að smíða leiktæki af þessu tagi, en hirti ekki einu sinni um að útbúa og framleiða ýmis hagnýtari tæki sem hann þó fann upp, svo sem sjálfvirkan vefstól. Við hirð Habsborgara í Vínarborg voru furðuleikföng af þessu tagi ekki síður í miklum metum. Árið 1769 sýndi franski sjónhverfingalistamaðurinn François Pelletier keisaraynjunni Maríu Theresu brögð sín, en hann var kunnur fyrir að nota segla til að framkalla sjónhverfingar sínar. Sýningin vakti aðdáun flestra viðstaddra, en þó ekki rithöfundarins og þúsundþjalasmiðsins Wolfgangs von Kempelen, sem var meðal áhorfenda. Hann lýsti því þegar yfir að hann gæti útbúið enn magnaðri sýningu á skömmum tíma.Skákvélin undursamlega Von Kempelen stóð við stóru orðin, því fáeinum mánuðum síðar sneri hann aftur til hirðarinnar með uppfinningu sína, sem átti eftir að rata í sögubækurnar sem einhver frægasta ráðgáta allra tíma: Skáktyrkjann. Skáktyrkinn var, eins og nafnið gefur ef til vill til kynna, brúða með vefjarhött, dökk á hörund sem sat við stóreflis skáp með taflborði. Brúðan gat hreyft hendurnar og fært taflmennina úr stað. Það var í sjálfu sér ekki svo merkilegt miðað við vélbrúðusmíði þess tíma, en undrið fólst í því að vélin reyndist slyngur skákmaður. Hún brást við leikjum andstæðinganna og sigraði þá flesta í fáeinum leikjum. Eins og gefur að skilja töldu flestir að brögð væru í tafli og að inni í Skáktyrkjanum hlyti að leynast skákmaður af holdi og blóði sem stýrði vélinni eða henni væri á einhvern hátt fjarstýrt af hönnuði sínum. Von Kempelen var hins vegar hvergi banginn. Meðan vélin tefldi gekk hann um meðal áhorfenda og fyrir og eftir skákirnar opnaði hann hurðir á skápnum undir skákborðinu, svo viðstaddir gátu séð með eigin augum að þar væri einungis tannhjól og vélbúnað að finna. Fagnaðarlátum í keisarahöllinni ætlaði aldrei að linna. Uppfinningamaðurinn var hlaðinn lofi og var ríkulega verðlaunaður. Sjálfum þótti von Kempelen ekki mikið til afreks síns koma. Hann skrúfaði Skáktyrkjann í sundur og sneri sér að smíði annarra uppfinninga og merkilegri að hans mati.Brúðan snýr aftur Rúmum áratug síðar var Jósef 2., sonur Maríu Theresu, sestur á valdastól. Von var á rússneska ríkisarfanum í opinbera heimsókn og taldi keisarinn vel til fundið að rifja upp þetta gamla skemmtiatriði. Uppfinningamaðurinn fékk fyrirmæli um að setja Skáktyrkjann saman á ný og undirtektirnar urðu síst lakari en í fyrra skiptið. Eftir keisaralegu heimsóknina vorið 1781 ákvað von Kempelen að ferðast víðar með vél sína. Hann heimsótti frönsku hirðina, hélt til Þýskalands og Bretlands. Alls staðar var Skáktyrkjanum tekið með kostum og kynjum. Í Frakklandi atti vélin meira að segja kappi við franska tónskáldið Philidor, sem almennt var álitinn slyngasti skákmaður sinnar tíðar. Fór svo að Philidor hafði sigur á vélinni en hrósaði henni þó fyrir snjalla taflmennsku. Wolfgang von Kempelen lést árið 1804, sjötugur að aldri. Gætti hann þess alla tíð að ljóstra ekki upp leyndarmáli vélarinnar. Skáktyrkinn komst um svipað leyti í hendur nýs eiganda sem hélt áfram að ferðast um álfuna og kynna frægðarfólki og fyrirmennum undur tækisins. Meðal þeirra sem fengu að etja kappi við vélina var sjálfur Napóleon, sem reyndi að snúa á hana með því að leika ítrekað ólöglega leiki. Síðar ferðaðist Skáktyrkinn með eiganda sínum til Ameríku, þar sem rithöfundurinn Edgar Allan Poe varð vitni að skáksýningu og ritaði grein þar sem hann reyndi að komast til botns í hvernig tækið virkaði. Poe, líkt og flestir aðrir sem reyndu að afhjúpa Skáktyrkjann, taldi ranglega að dvergur eða fótalaus maður hlyti að leynast inni í sjálfri brúðunni. Veruleikinn var hins vegar sá að hreyfanlegu sæti var komið fyrir í skápnum, sem var rennt til hliðar á meðan stjórnandinn sannfærði áhorfendur um að þar væri ekkert að finna nema vélbúnað. Undir taflmönnunum var komið fyrir seglum og gat skákmaðurinn sem leyndist í skápnum séð af tilfærslu þeirra stöðuna á skákborðinu og stjórnað leikjum brúðunnar. Til þess að duldi skákmaðurinn sæi handa sinna skil var kertaljós látið loga inni í rýminu, sem aftur kallaði á flókið loftræstikerfi og reykháf upp úr vefjarhetti Tyrkjans. Svo að reykurinn frá kertaloganum uppgötvaðist ekki var þess gætt að láta loga umhverfis brúðuna kerti sem gáfu frá sér mikinn og dulúðugan reyk. Af þessum lýsingum má sjá að vélin hefur verið mikil völundarsmíð, þótt einstök smáatriði í hönnuninni séu ekki með öllu ljós, því upprunalegi Skáktyrkinn glataðist í eldsvoða í furðugripasafni í New York árið 1854, þar sem vélina hafði dagað uppi. Endurgerðir hennar byggja því að nokkru leyti á ágiskunum eða endursögnum þeirra örfáu manna sem fengu að kynna sér leyndarmálið. Eftir stendur að Skáktyrkinn er vafalítið einhver frægasta brella í sögu töfra- og sjónhverfingalista seinustu alda og er þar þó af ýmsu að taka. Saga til næsta bæjar Mest lesið „Mæli rosalega mikið með því að giftast þeim sem maður elskar“ Lífið Sjón og Eggers leiða hesta sína saman í nýjum vampíruhryllingi Bíó og sjónvarp Sagt að koma strax upp á bráðamótttöku Lífið Fær stóru tíðindin á sama tíma og við hin Lífið Ástfangin í eitt ár og flutt inn saman Lífið Myndaveisla: Fegurstu fljóð Vesturbæjarins blótuðu þorrann Lífið Fimmtíu milljón króna hækkun eftir umfangsmiklar endurbætur Lífið Erlend Eurovision-stjarna mætir á Söngvakeppnina Lífið Meintur stuldur á borð RÚV Lífið Myndaveisla: Dansað fram á nótt á þorrablóti Keflavíkur Lífið Fleiri fréttir Anna Rós hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör Létu sig ekki vanta á frumsýningu Ungfrú Íslands Bókamarkaðurinn færir sig um set Troðfullt hús og standandi lófaklapp „Persónan Elmar er alls ekki Helgi“ Skrumskæld mynd af Helga Skúla í Vigdísarþáttum Ætlar aldrei aftur til Tenerife: „Þetta er hræðilegur staður“ Metsölulisti bókaútgefenda sé „ómarktækur“ Þetta voru mest seldu bækur ársins 2024 Af hverju er þessi kona á öllum auglýsingaskiltum? Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Sjá meira
Um miðbik síðustu aldar enduruppgötvuðu fræðimenn verk fjölfræðingsins Leónardós frá Vinci. Myndlist Leónardós var öllum kunn, sem og þær vísindarannsóknir sem ratað höfðu á prent. Öðru máli gegndi hins vegar um fjölda minnisbóka meistarans sem dreifst höfðu um allar trissur. Ekki bætti úr skák að minnisbækurnar voru sundurlaus samtíningur af athugunum og rissmyndum, sem ritaðar voru með spegilskrift, annaðhvort til að erfiðara væri að afrita þær eða til að gera hinum örvhenta vísindamanni unnt að skrifa hraðar. Þegar gengið var í að taka saman heildaryfirlit yfir verk Leónardós komu ný handrit í ljós og athyglitók að beinast að öðrum þáttum. Þá freistuðu tæknimenn þess að endurgera sumar uppfinningarnar. Ein þessara uppfinninga var nokkurs konar vélmenni: brynjuklæddur riddari í fullri stærð sem unnt var að stýra á þann hátt að hann gat heilsað, kinkað kolli, bugtað sig og beygt. Sögur hermdu að Leónardó hefði útbúið slíkan gervimann sem skemmtiatriði við hirð Ludovicos Sforza, hertoga af Mílanó, árið 1495. Starfsmönnum ítalsks vísindasafns tókst að smíða nothæfa útgáfu af riddara Leónardós eftir skissum hans. Leónardó er fráleitt fyrsti vísindamaðurinn sem hefur verið eignuð uppfinning af þessum toga. Sagan er full af mistrúverðugum frásögum af hreyfanlegum vélum í manns- eða dýralíki sem hinir og þessir snillingar eiga að hafa smíðað í gegnum tíðina. Þannig voru nokkrir forngrískir vísindamenn sagðir hafa skapað slíkar vélar og sama má segja um kollega þeirra í Kína og síðar úr hópi arabískra hugvitsmanna.Gervimenn um víða veröld Það var þó fyrst í Evrópu á sautjándu og átjándu öld sem áhuginn á smíði frumstæðra vélmenna hófst. Það má að miklu leyti rekja til aukinnar vélhyggju. Vísindamenn sáu samsvaranir milli fyrirbæra í náttúrunni og sífellt flóknari sigurverka klukkusmiða álfunnar. Þannig líkti hugsuðurinn áhrifamikli Erasmus frá Rotterdam beinagrind og vöðvafestingu dýra og fugla við vélbúnað. Það væri í raun stigsmunur en ekki eðlismunur á lífverum og úrverki. Haganlega smíðaðar eftirlíkingar af dýrum, sem gátu hreyft sig eða leikið tónlist, urðu vinsælir gripir í svokölluðum furðugripaherbergjum. Það voru hirslur eða heilu herbergin í höllum þjóðhöfðingja og aðalsmanna, þar sem safnað var saman fágætum náttúrugripum (sviknum jafnt sem ósviknum) en einnig hvers kyns völundarsmíð – tækjum og tólum sem vakið gátu aðdáun gesta. Söfn þessi voru stöðutákn og áttu að sýna fram á auðlegð og vísindaáhuga eigenda sinna. Það var því lítið til sparað þegar kom að því að kaupa sýningargripi og eftir miklu að slægjast fyrir snjalla uppfinningamenn. Ein frægasta smíð af þessu tagi var vélönd sem virtist éta og melta fæðu sína, það er: hún át korn sem fyrir hana var lagt en skilaði frá sér úrgangi sem minnti helst á raunverulegan andaskít. Vélöndin, sem hönnuð var árið 1739, byggði vitaskuld á blekkingum þar sem „melta úrganginum“ var komið fyrir í sérstöku hólfi inni í vélinni. Auk þess að éta og drita, gat fuglinn blakað vængjunum með tilþrifum, en um 400 lausir hlutir voru í hvorum væng hennar. Öndin vakti aðdáun hvarvetna og komu menn um langan veg til að sjá hana. Segir það sína sögu að uppfinningamaðurinn, Frakkinn Jacques de Vaucanson, lifði góðu lífi á því að smíða leiktæki af þessu tagi, en hirti ekki einu sinni um að útbúa og framleiða ýmis hagnýtari tæki sem hann þó fann upp, svo sem sjálfvirkan vefstól. Við hirð Habsborgara í Vínarborg voru furðuleikföng af þessu tagi ekki síður í miklum metum. Árið 1769 sýndi franski sjónhverfingalistamaðurinn François Pelletier keisaraynjunni Maríu Theresu brögð sín, en hann var kunnur fyrir að nota segla til að framkalla sjónhverfingar sínar. Sýningin vakti aðdáun flestra viðstaddra, en þó ekki rithöfundarins og þúsundþjalasmiðsins Wolfgangs von Kempelen, sem var meðal áhorfenda. Hann lýsti því þegar yfir að hann gæti útbúið enn magnaðri sýningu á skömmum tíma.Skákvélin undursamlega Von Kempelen stóð við stóru orðin, því fáeinum mánuðum síðar sneri hann aftur til hirðarinnar með uppfinningu sína, sem átti eftir að rata í sögubækurnar sem einhver frægasta ráðgáta allra tíma: Skáktyrkjann. Skáktyrkinn var, eins og nafnið gefur ef til vill til kynna, brúða með vefjarhött, dökk á hörund sem sat við stóreflis skáp með taflborði. Brúðan gat hreyft hendurnar og fært taflmennina úr stað. Það var í sjálfu sér ekki svo merkilegt miðað við vélbrúðusmíði þess tíma, en undrið fólst í því að vélin reyndist slyngur skákmaður. Hún brást við leikjum andstæðinganna og sigraði þá flesta í fáeinum leikjum. Eins og gefur að skilja töldu flestir að brögð væru í tafli og að inni í Skáktyrkjanum hlyti að leynast skákmaður af holdi og blóði sem stýrði vélinni eða henni væri á einhvern hátt fjarstýrt af hönnuði sínum. Von Kempelen var hins vegar hvergi banginn. Meðan vélin tefldi gekk hann um meðal áhorfenda og fyrir og eftir skákirnar opnaði hann hurðir á skápnum undir skákborðinu, svo viðstaddir gátu séð með eigin augum að þar væri einungis tannhjól og vélbúnað að finna. Fagnaðarlátum í keisarahöllinni ætlaði aldrei að linna. Uppfinningamaðurinn var hlaðinn lofi og var ríkulega verðlaunaður. Sjálfum þótti von Kempelen ekki mikið til afreks síns koma. Hann skrúfaði Skáktyrkjann í sundur og sneri sér að smíði annarra uppfinninga og merkilegri að hans mati.Brúðan snýr aftur Rúmum áratug síðar var Jósef 2., sonur Maríu Theresu, sestur á valdastól. Von var á rússneska ríkisarfanum í opinbera heimsókn og taldi keisarinn vel til fundið að rifja upp þetta gamla skemmtiatriði. Uppfinningamaðurinn fékk fyrirmæli um að setja Skáktyrkjann saman á ný og undirtektirnar urðu síst lakari en í fyrra skiptið. Eftir keisaralegu heimsóknina vorið 1781 ákvað von Kempelen að ferðast víðar með vél sína. Hann heimsótti frönsku hirðina, hélt til Þýskalands og Bretlands. Alls staðar var Skáktyrkjanum tekið með kostum og kynjum. Í Frakklandi atti vélin meira að segja kappi við franska tónskáldið Philidor, sem almennt var álitinn slyngasti skákmaður sinnar tíðar. Fór svo að Philidor hafði sigur á vélinni en hrósaði henni þó fyrir snjalla taflmennsku. Wolfgang von Kempelen lést árið 1804, sjötugur að aldri. Gætti hann þess alla tíð að ljóstra ekki upp leyndarmáli vélarinnar. Skáktyrkinn komst um svipað leyti í hendur nýs eiganda sem hélt áfram að ferðast um álfuna og kynna frægðarfólki og fyrirmennum undur tækisins. Meðal þeirra sem fengu að etja kappi við vélina var sjálfur Napóleon, sem reyndi að snúa á hana með því að leika ítrekað ólöglega leiki. Síðar ferðaðist Skáktyrkinn með eiganda sínum til Ameríku, þar sem rithöfundurinn Edgar Allan Poe varð vitni að skáksýningu og ritaði grein þar sem hann reyndi að komast til botns í hvernig tækið virkaði. Poe, líkt og flestir aðrir sem reyndu að afhjúpa Skáktyrkjann, taldi ranglega að dvergur eða fótalaus maður hlyti að leynast inni í sjálfri brúðunni. Veruleikinn var hins vegar sá að hreyfanlegu sæti var komið fyrir í skápnum, sem var rennt til hliðar á meðan stjórnandinn sannfærði áhorfendur um að þar væri ekkert að finna nema vélbúnað. Undir taflmönnunum var komið fyrir seglum og gat skákmaðurinn sem leyndist í skápnum séð af tilfærslu þeirra stöðuna á skákborðinu og stjórnað leikjum brúðunnar. Til þess að duldi skákmaðurinn sæi handa sinna skil var kertaljós látið loga inni í rýminu, sem aftur kallaði á flókið loftræstikerfi og reykháf upp úr vefjarhetti Tyrkjans. Svo að reykurinn frá kertaloganum uppgötvaðist ekki var þess gætt að láta loga umhverfis brúðuna kerti sem gáfu frá sér mikinn og dulúðugan reyk. Af þessum lýsingum má sjá að vélin hefur verið mikil völundarsmíð, þótt einstök smáatriði í hönnuninni séu ekki með öllu ljós, því upprunalegi Skáktyrkinn glataðist í eldsvoða í furðugripasafni í New York árið 1854, þar sem vélina hafði dagað uppi. Endurgerðir hennar byggja því að nokkru leyti á ágiskunum eða endursögnum þeirra örfáu manna sem fengu að kynna sér leyndarmálið. Eftir stendur að Skáktyrkinn er vafalítið einhver frægasta brella í sögu töfra- og sjónhverfingalista seinustu alda og er þar þó af ýmsu að taka.
Saga til næsta bæjar Mest lesið „Mæli rosalega mikið með því að giftast þeim sem maður elskar“ Lífið Sjón og Eggers leiða hesta sína saman í nýjum vampíruhryllingi Bíó og sjónvarp Sagt að koma strax upp á bráðamótttöku Lífið Fær stóru tíðindin á sama tíma og við hin Lífið Ástfangin í eitt ár og flutt inn saman Lífið Myndaveisla: Fegurstu fljóð Vesturbæjarins blótuðu þorrann Lífið Fimmtíu milljón króna hækkun eftir umfangsmiklar endurbætur Lífið Erlend Eurovision-stjarna mætir á Söngvakeppnina Lífið Meintur stuldur á borð RÚV Lífið Myndaveisla: Dansað fram á nótt á þorrablóti Keflavíkur Lífið Fleiri fréttir Anna Rós hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör Létu sig ekki vanta á frumsýningu Ungfrú Íslands Bókamarkaðurinn færir sig um set Troðfullt hús og standandi lófaklapp „Persónan Elmar er alls ekki Helgi“ Skrumskæld mynd af Helga Skúla í Vigdísarþáttum Ætlar aldrei aftur til Tenerife: „Þetta er hræðilegur staður“ Metsölulisti bókaútgefenda sé „ómarktækur“ Þetta voru mest seldu bækur ársins 2024 Af hverju er þessi kona á öllum auglýsingaskiltum? Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Sjá meira