Erlent

Norski Framfaraflokkurinn bætir við sig fylgi

Atli Ísleifsson skrifar
Siv Jensen er fjármálaráðherra Noregs og formaður Framfaraflokksins.
Siv Jensen er fjármálaráðherra Noregs og formaður Framfaraflokksins. Vísir/AFP

Ný könnun NRK sýnir að Framfaraflokkurinn hafi bætt við sig fylgi og mælist nú með meira fylgi en fyrir kosningarnar 2013. Yrðu úrslit kosninganna í takt við könnunina myndu borgaralegu flokkarnir naumlega halda meirihluta sínum á norska þinginu.



Þingkosningar fara fram í Noregi sunnudaginn 10. og mánudaginn 11. september.



Framfaraflokkurinn mælist í könnuninni með 17 prósent fylgi, 0,7 prósent meira en í síðustu kosningum.



Frambjóðendur Framfaraflokksins hafa mikið verið í fréttum síðustu daga, meðal annars vegna umdeildrar heimsóknar Sylvi Listhaug, ráðherra innflytjendamála, til Rinkeby, úthverfis Stokkhólms í Svíþjóð.



Verkamannaflokkurinn, undir stjórn Jonas Gahr Störe, mælist stærsti flokkurinn, með 25,8 prósent fylgi og Hægriflokkur Ernu Solberg næststærstur með 24,2 prósent.



Hægriflokkurinn og Framfaraflokkurinn mynda nú minnihlutastjórn í Noregi með stuðningi Kristilega þjóðarflokksins og Venstre.



Niðurstaða könnunarinnar:

Rødt 3,2 prósent

Sósíalíski vinstriflokkurinn 5,9 prósent

Verkamannaflokkurinn 25,8 prósent

Miðflokkurinn 9,6 prósent

Umhverfisflokkurinn – grænir 4,6 prósent

Kristilegi þjóðarflokkurinn 4,5 prósent

Venstre 3,5 prósent

Hægriflokkurinn 24,2 prósent

Framfaraflokkurinn 17 prósent

Aðrir flokkar 1,6 prósent



Könnun var gerð dagana 31. ágúst til 4. September, en nánar má lesa um hana á vef NRK.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×