Erlent

„Þetta verður virkilega slæmt en við erum mjög vel undirbúin“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, segir yfirvöld vel undirbúin fyrir komu Irmu.
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, segir yfirvöld vel undirbúin fyrir komu Irmu. vísir/getty
Íbúar í Flórída í Bandaríkjunum búa sig nú undir komu fellibylsins Irmu sem er einn sá öflugasti síðan mælingar hófust. Hann var 5. stigs fellibylur þegar hann hóf að herja á eyjar í Karíbahafi um miðja vikuna en hefur nú misst örlítið af styrk sínum og er nú skilgreindur sem 4. stigs fellibylur.

Irma er engu að síður enn mjög öflug og hefur Brock Long, yfirmaður Bandarísku almannavarnastofnunarinnar, sagt að það sé ekki spurning hvort að íbúar Flórída verði fyrir barðinu á Irmu heldur hversu miklum usla hún veldur.

Því er spáð að fellibylurinn nái strönd Flórída seint á sunnudag og fari þá yfir Flórídaskagann. Embættismenn hafa ítrekað varað íbúa Flórída við Irmu í dag og sagt þeim að vanmeta ekki fellibylinn og eyðilegginguna sem hann getur valdið. Þannig sagði ríkisstjórinn Rick Scott fyrr í dag að Irma væri mun stærri en fellibylurinn Andrew sem gekk yfir Flórída árið 1992 og er stærsti fellibylurinn sem skollið hefur á ströndum skagans.

Þá hefur Donald Trump, Bandaríkjaforseti, einnig varað íbúa landsins við Irmu í dag en hann sagði fellibylinn geta valdið sögulegri eyðileggingu í landinu. Þegar hann yfirgaf Hvíta húsið í dag voru þetta skilaboð hans til landsmanna:

„Við erum undirbúin. Við erum mjög vel undirbúin. Þetta verður virkilega slæmt en við erum mjög vel undirbúin. Vonandi fer allt vel.“

Að minnsta kosti 23 hafa látið lífið á hinum ýmsu eyjum í Karíbahafi vegna Irmu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×