Erlent

Kafbátnum sökkt af ásettu ráði – Enn leitað að Kim Wall

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Leitað var í kafbátnum en ekkert lík fannst.
Leitað var í kafbátnum en ekkert lík fannst. Vísir/AFP

Enn er leitað að sænsku blaðakonunni Kim Wall sem hefur verið saknað frá því á föstudaginn. Eins og Vísir greindi frá í gær var kafbátaeigandanum Peter Madsen bjargað þegar kafbáturinn hans sökk. Hann var svo handtekinn í kjölfarið fyrir grun um manndráp af gáleysi en blaðakonan fór um borð í kafbátinn fyrr um daginn til þess að skrifa grein um Madsen og bátinn.

Peter segir að hún hafi ekki verið í bátnum þegar hann sökk. Umfangsmikil leit var gerð í kafbátnum í morgun en ekki hafði tekist að komast að honum í gær. Ekkert lík fannst og heldur leitin að Kim því áfram.

Þá hefur lögreglan í Kaupmannahöfn ástæðu til að halda að bátnum hafi verið sökkt að ásettu ráði en vill ekki gefa frekari skýringar að svo stöddu.

Jens Moller, sem fer fyrir rannsókn málsins hjá Kaupmannahafnarlögreglunni, segir að þeir vonist til að finna Kim á lífi en undirbúi sig fyrir þá staðreynd að hún gæti verið látin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×