Erlent

Neitar enn að hafa orðið blaðakonunni að bana

Samúel Karl Ólason skrifar
Peter Madsen og kafbáturinn UC3 Nau­tilus.
Peter Madsen og kafbáturinn UC3 Nau­tilus. Vísir/EPA

Peter Madsen, danskur auðkýfingur og kafbátasmiður, neitar því enn að hafa banað Kim Wall, sænskri blaðakonu. Wall fór með honum í jómfrúarferð heimasmíðs kafbáts.

Madsen ætlar ekki að áfrýja 24 daga gæsluvarðhaldsúrskurði. Hann var handtekinn á laugardaginn grunaður um manndráp af gáleysi eftir að kafbáturinn UC3 Nau­tilus sökk á föstudaginn.

Lík Wall fannst ekki í kafbátnum þar sem leitað var í gær og verður leitinni haldið áfram í dag. Leitarsvæðið er þó stórt og nær yfir lögsögu bæði Svíþjóðar og Danmerkur, samkvæmt frétt SVT.

Kim Wall hefur ekki sést frá því á fimmtudaginn. Húnfór í siglinguna með Madsen í þeim tilgangi að skrifa um kafbátinn og siglinguna.

Kærasti Wall tilkynnti hvarf hennar þegar hún skilaði sér ekki úr ferðinni. Þegar samband náðist við Madsen í gegnum talstöð sagðist hann vera á leið aftur til hafnar. Hins vegar sökk báturinn í Køgesundi á föstudaginn. Madsen var bjargað en Wall hefur ekki fundist.

Samkvæmt SVT sagði Madsen að hann hefði hleypt Wall í land í Kaupmannahöfn á fimmtudagskvöldinu. Seinna mun hann þó hafa breytt sögu sinni og gefið lögreglu aðra útskýringu.

Lögreglan hefur sagst hafa ástæðu til að halda að bátnum hafi verið sökkt af ásettu ráði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×