Sport

Faðir Gatlins: Vanvirðing við íþróttina að baula á son minn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Justin Gatlin með gullverðlaunin.
Justin Gatlin með gullverðlaunin. vísir/getty
Faðir spretthlauparans Justins Gatlin segir að það hafi verið vanvirðing að baula á son hans eftir að hann vann 100 metra hlaupið á HM í frjálsum íþróttum í London á laugardagskvöldið.

Fyrir hlaupið bjuggust flestir við sigri Usains Bolt sem var að hlaupa sitt síðasta 100 metra hlaup á ferlinum. En Jamaíkumaðurinn sat eftir í byrjun og náði aðeins 3. sæti.

Gatlin, sem hefur tvisvar sinnum fallið á lyfjaprófi, sigraði á 9,92 sekúndum en fékk heldur óblíðar mótttökur frá áhorfendum á Lundúnaleikvanginum fyrir og eftir hlaupið.

„Hann tók út sitt bann og lagði mikið á sig til að koma til baka og komast í meistaraform,“ sagði Willie Gatlin, faðir Justins.

„Það var vanvirðing við íþróttina að baula á hann. Íþróttin hefur alltaf verið hér og mun áfram verða hér eftir að hann hverfur af sviðinu. Hann bjó til minningu sem fólk gleymir ekki.“

Eftir hlaupið sagði Lord Coe, forseti alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, að sigur Gatlins hafi ekki verið hluti af fullkomna handritinu.

Gatlin var fyrst dæmdur í bann árið 2001 og svo aftur fimm árum síðar.


Tengdar fréttir

Ekki hið fullkomna handrit að Gatlin hafi unnið

Lord Coe, forseti alþjóðafrálsíþróttasambandsins, segir að sigur Justins Gatlin í 100 metra hlaupi á HM í frjálsum í gær hafi ekki verið í fullkomna handritinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×