Enski boltinn

Tottenham fær alltaf 72 tíma til að jafna tilboð frá Man. United í Bale

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gareth Bale
Gareth Bale Vísir/Getty
Enska úrvalsdeildarliðið Manchester United hefur lengi haft mikill áhuga á að fá til sín Gareth Bale og enskir miðlar eru duglegir að orða velsku súperstjörnuna við United.

Mirror segir frá því að það sé ekki bara nóg fyrir Manchester United að sannfæra Real Madrid um að selja Bale. Málið er aðeins flóknara en það sé velski landsliðsmaðurinn aftur á leiðinni í ensku úrvalsdeildina.  

Real Madrid keypti frá Tottenham fyrir 85 milljónir punda á sínum tíma en stjórnarformaðurinn Daniel Levy hafði vit á því að koma áhugaverðri klausu inn í samninginn.

Samkvæmt heimildum Mirror þá fær Tottenham alltaf 72 tíma til að jafna tilboð frá öðru liði í ensku úrvalsdeildinni.

Manchester United þarf því alltaf að bíða í þrjá sólarhringa eftir því hvað Tottenham gerir fari svo að United nái saman um kaupverð við Real Madrid.

Gareth Bale er 28 ára gamall og að fara að hefja sitt fimmta tímabil hjá Real Madrid. Hann hefur aldrei komið að jafnfáum mörkum í spænsku úrvalsdeildinni og í fyrra (7 mörk og 3 stoðsendingar í 19 leikjum) en Bale var þá mikið meiddur.

Tímabilið 2015-16 þá kom Bale að 30 mörkum í 23 leikjum í spænsku deildinni, skoraði 19 mörk sjálfur og gaf 11 stoðsendingar. Hann hefur alls skorað 54 mörk og gefið 36 stoðsendingar í 100 deildarleikjum með Real Madrid.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×