Erlent

Sakaðir um að hafa drepið 29 borgara á sólarhring

Samúel Karl Ólason skrifar
Leyniskytta SDF horfir yfir Raqqa.
Leyniskytta SDF horfir yfir Raqqa. Vísir/AFP
Bandalag Bandaríkjanna gegn Íslamska ríkinu er sakað um að hafa drepið 29 almenna borgara í árásum á Raqqa í Sýrlandi. Árásirnar eru sagðar hafa verið gerðar á einum sólarhring og að fjórtán meðlimir einnar fjölskyldu hafi látið lífið. Samtökin Syrian Observatory for Human Rights segja töluna geta hækkað frekar þar sem einhverjir séu alvarlega særðir.

Bandaríkin styðja við bakið á samtökum sýrlenskra Kúrda og araba sem herja nú á Raqqa, síðustu borgina sem enn er í haldi ISIS. Samtökin sem kallast Syrian Democratic Forces stjórna nú tæpum helmingi Raqqa, en mótspyrna ISIS-liða er sögð vera gífurlega hörð.

Helstu vopn ISIS-liða eru sjálfsmorðssprengjur, bílsprengjur, leyniskyttur og drónar sem sérstaklega eru útbúnir til að bera sprengjur. Þá beita vígamenn gildrum víða um borgina.

Frá því að aðgerðir Bandaríkjanna gegn ISIS hófust þann 8. ágúst 2014, í Írak, hafa hernaðaryfirvöld viðurkennt að hafa drepið 624 almenna borgara. Mannréttindasamtök segja töluna vera mun hærri í rauninni, samkvæmt frétt AFP fréttaveitunnar.



Útsendarar Sameinuðu þjóðanna sem rannsaka stríðsglæpi lýstu í júní yfir áhyggjum vegna hækkandi mannfalls meðal borgara í Raqqa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×