Skoðun

Ábyrgð ríkisins á íþróttahreyfingunni

Bjarni Már Magnússon og Margrét Lilja Guðmundsdóttir skrifar

Áminningarbréf Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) til íslenska ríkisins vegna meintra brota Körfuknattleikssambands Íslands (KKÍ) á reglum EES-samningsins, um frjálsa för launþega innan EES-svæðisins, hefur verið í brennidepli að undanförnu. Í bréfinu kemur fram að ESA telur að hin svokallaða 4+1 regla, sem leyfir aðeins einn erlendan leikmann í hvoru liði inni á vellinum í einu, feli í sér brot á réttindum EES-ríkisborgara enda gera reglur KKÍ engar undantekningar vegna þeirra.



Ríkið og ÍSÍ



Þó svo að hér sé um að ræða stórtíðindi fyrir íslenskan körfubolta er, að mati undirritaðra, umfjöllun áminningarbréfsins um tengsl ríkisvaldsins og íþróttahreyfingarinnar mun merkilegri. Í stuttu máli segir í bréfinu að í íþróttalögum hafi ríkið framselt lagasetningarvald til Íþróttasambands Íslands (ÍSÍ) til að setja reglur um íþróttir hérlendis og að ÍSÍ sé að miklu leyti fjármagnað af íslenska ríkinu. Vegna náinna tengsla ríkisins við íþróttahreyfinguna sé því skylt að sjá til þess að reglum EES-samningsins og afleidds réttar sé framfylgt innan ÍSÍ. Undir ÍSÍ heyra héraðssambönd, íþróttabandalög og sérsambönd eins og KKÍ og KSÍ, m.ö.o. stór hluti íþróttalífs í landinu heyrir undir ÍSÍ.



Jafnrétti kynjanna



Í framhaldinu verður að spyrja hvort að ríkið geti verið ábyrgt vegna annarra hugsanlegra lögbrota innan íþróttahreyfingarinnar, s.s. vegna jafnréttismála, á sömu forsendum. Auk þess verður að spyrja hvort að ríkið verði ekki að herða eftirlit og eftirfylgni með að íþróttahreyfingin fari að lögum ef það ber að einhverju leyti ábyrgð á því sem fram fer innan hennar.

Margrét Lilja Guðmundsdóttir, aðjúnkt við íþróttafræðisvið HR.

Ljóst er að stjórnvöld, sem og íþróttahreyfingin, verða að taka áminningarbréf ESA til gaumgæfilegrar skoðunar. Slíkt bréf markar upphaf málsmeðferðar sem getur endað með dómsmáli ESA gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum. Telja verður líklegt að svör íslenska ríkisins til ESA muni að miklu leyti snúast um tengsl ríkisvaldsins við íþróttahreyfinguna og hvort að ríkið geti borið ábyrgð á lögbrotum innan ÍSÍ. Þetta er mikilvægt málefni fyrir íþróttalífið í landinu sem verðskuldar athygli.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×